135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[22:08]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, við viljum gjarnan fá reynslu af því frumvarpi sem hér er verið að fjalla um. Það er ágætt að fá reynslu en ég held ég geti nokkurn veginn verið viss um að reynslan verður góð. Ég tel því ekki að við þurfum að bíða neitt sérstaklega eftir reynslunni. Ég held þetta snúist frekar um það hvað við treystum okkur til að ganga langt. Ég skil alveg að menn vilji síður ganga mjög sterkt gegn kirkjunni, ég virði það sjónarmið. En ég tel að við stjórnmálamenn verðum að leiða umræðuna eins hratt og örugglega og hægt er.

Miðað við það sem er að gerast, og þær breytingar sem eru að verða á viðhorfum til samkynhneigðra, er samfélagið að mínu mati reiðubúið til að samþykkja að við göngum þessa götu til enda, jöfnum réttindin fullkomlega, höfum ein hjúskaparlög í landinu. Ég tel líka, þó að ég hafi ekki gert á því vísindalega könnun, miðað við þekkingu mína á Alþingi Íslendinga og þeim sem hér sitja, að meiri hluti sé fyrir því. Ef hver einasti þingmaður fengi algert frelsi óháð flokkum til að greiða atkvæði tel ég að við mundum samþykkja að samkynhneigðum verði kleift að ganga í hjónaband eins og öðrum, þ.e. að þeir prestar kirkjunnar sem vildu vígja samkynhneigða til hjónabands fengju heimild til að gera það.

Fordæmi eru fyrir slíku í ýmsum málum hér. Ég nefni boxið, bjórinn og þegar við breyttum vindstigum í metra á sekúndu o.s.frv. Ég tel að þingið sé tilbúið í þetta og samfélagið en ég vil þó þakka þau svör að forsætisráðherra vill ræða framhaldið. Það er jákvætt.