135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

verðbólguþróun.

[15:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Nú vantaði bara að hv. þingmaður segði að hann byðist sjálfur til að taka við. Verðbólgutölurnar sem birtust í morgun eru auðvitað slæmar og þær eru verri en við bjuggumst við og flestir voru búnir að spá. Hins vegar hefur það legið í hlutarins eðli undanfarnar vikur að við mundum ganga í gegnum tiltekinn verðbólgukúf og miðað við þær tölur sem nú liggja fyrir er líklegt að hann gangi hraðar yfir en menn höfðu áður haldið. Með öðrum orðum, að verðbólgan muni minnka hratt á næstunni úr þeim 11,8% sem hún mælist núna miðað við síðustu 12 mánuði. Það eru góðu fréttirnar í þessu.

Hins vegar er það svo og meira að segja hv. þingmaður gekkst við því, þó að hann kenni ríkisstjórninni um alla skapaða hluti, að heimsmarkaðsverð á hinum og þessum nauðsynjum hefur verið að hækka, t.d. á korni, hveiti, olíu og afurðum sem eru unnar úr olíu, plasti og mörgu fleiru sem mikið er notað hér á landi. Þetta verð hefur verið að hækka í erlendum gjaldmiðli komið hingað til lands. Það sem er svo meginskýringin á verðhækkununum núna er auðvitað það að gengi krónunnar hefur lækkað mjög hratt og mjög mikið á undanförnum vikum og sú breyting skilar sér mun hraðar í verðlaginu en venja er og það er sennilega vegna þess hversu snögg gengislækkunin varð. Það er líka hugsanlegt að einhverjir séu í skjóli þeirra breytinga að neyta aðstöðu sinnar til að hækka verðlag að ástæðulausu. Gegn því þurfum við að vera á verði og það er þess vegna sem ríkisstjórnin, að frumkvæði viðskiptaráðherra, hefur ákveðið að beita sér fyrir tilteknum ráðstöfunum, sem hann hefur og mun gera nánar grein fyrir, til að hamla gegn slíku. Það er það sem gera þarf á næstunni, virðulegi forseti.