135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

ferjusiglingar á Breiðafirði.

[15:20]
Hlusta

Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann sé reiðubúinn að hætta við fyrirhugaðan niðurskurð á framlögum Vegagerðarinnar til Sæferða ehf. vegna ferða Baldurs yfir Breiðafjörð þannig að ekki komi til fækkunar á ferðum í sumar.

Ferjan hefur tryggt heilsárssamgöngur við sunnanverða Vestfirði um áratugi og er íbúum, fyrirtækjum og ferðamönnum nauðsynlegur ferðamáti. Ekki þarf að hafa mörg orð um ástand vega á sunnanverðum Vestfjörðum og því miður hafa orðið tafir á úrbótum í þeim efnum. Í núgildandi samningi milli Vegagerðarinnar og Sæferða er gert ráð fyrir stiglækkandi opinberum stuðningi við ferjusiglingar samhliða vegabótum. Fyrirséð er að vegna tafa á vegabótum muni stiglækkandi opinber stuðningur við ferjusiglingar leiða til verri samgangna við sunnanverða Vestfirði.

Á síðasta fundi í samgöngunefnd vakti ég máls á þeirri stöðu sem uppi er og gat ekki greint annað en að samstaða væri í nefndinni um að tryggja áframhaldandi stuðning við ferjusiglingar á Breiðafirði. Það skiptir byggðarlögin fyrir vestan miklu máli en þau treysta í æ ríkari mæli á ferðaþjónustuna yfir sumarmánuðina. Ég skora á ráðherra að gaumgæfa hagsmuni íbúa og fyrirtækja á svæðinu og taka á málinu strax.