135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

hvíldartímaákvæði bílstjóra og verð á dísilolíu.

[15:28]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka skýrt fram að einungis hluti vörubílstjóra hefur tekið þátt í aðgerðunum undanfarið, sem betur fer ekki allur hópurinn. Stór hópur hefur haft samband við mig og sent póst í ráðuneytið og sagt að þeir styðji ekki það sem verið er að gera. Þeir eru mjög ánægðir með það sem við erum að gera hvað það varðar að sækja um ákveðnar undanþágur varðandi reglugerðir um akstur og hvíld.

Ég tek það hins vegar skýrt fram að á fundi með aðalmótmælendunum kom fram skýlaus krafa um að reglugerðin yrði í heild sinni, sektarákvæði og allt saman, felld úr gildi, að ekkert af þessu tagi yrði til. Það kemur auðvitað ekki til greina og er ekki á dagskrá.

Það er dálítið merkilegt að Samtök atvinnulífsins og ASÍ komust að samkomulagi um ákveðin atriði sem þau óskuðu eftir að við gerðum að okkar til að sækja um undanþágur frá þessari reglugerð og það hefur verið gert. Þeim undanþágubeiðnum eða þeim tillögum hefur verið fylgt eftir m.a. nýlega á fundi úti í Brussel, á fundi með starfsmönnum hjá Eftirlitsstofnun Evrópu. Þar eru séríslenskar aðstæður settar fram og er of langt mál að fara í gegnum það á þeim stutta tíma sem við höfum. Ég er þó viss um að allt er það til bóta og mikilvægt að samstaða sé um það.

Ég vil einnig geta þess að á vegum okkar er nú samstarfsvettvangur, svokallað landflutningaráð, sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson m.a. stýrir. Ég held að þar séu þessir hlutir líka í góðum farvegi.

Ég ítreka það sem ég sagði: Við höfum rætt þetta og kannski kem ég betur að því hér á eftir. Vörubílstjórar hafa m.a. talað um að ræða við Vegagerðina um hvernig (Forseti hringir.) farið verður með eftirlitið. Ég held hins vegar að það sé í góðu standi.