135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

hvíldartímaákvæði bílstjóra og verð á dísilolíu.

[15:31]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég gerði það viljandi að koma að þessum þætti í seinna svari mínu. Þegar sú breyting var gerð að þungaskattskerfið var lagt af og olíugjald tekið upp var megintilgangurinn m.a. sá að dísilolían yrði 10–12 kr. ódýrari en bensínlítrinn. Það gekk hins vegar ekki eftir en það voru ekki innlendar ástæður fyrir því heldur breyting á heimsmarkaðsverði á olíu gagnvart bensíni. Þar hefur þetta algjörlega snúist við og er heimsmarkaðsverð á olíu nú orðið hærra en á bensíni.

Vegna þess að hv. þingmaður spyr út í það er rétt að geta þess að hlutur stjórnvalda sem prósenta af heildardísilolíuverðinu er 49 eða tæp 50% á meðan við sjáum lönd í nágrenni okkar fara langleiðina í 60%. Hlutfallið sem slíkt hefur lækkað, vörugjaldið sem svo er kallað eða dísilolíugjaldið er 41 kr. Að stærstum hluta rennur það til vegagerðar og vegamála núna og það fer einmitt í það sem hv. þingmaður talaði um áðan í stórátak í (Forseti hringir.) samgöngumálum og það stendur yfir. Aldrei hefur jafnmiklu fé verið veitt til samgöngumála og einmitt núna.