135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

ættleiðingar.

578. mál
[15:37]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um ættleiðingar.

Frumvarpið er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Með því eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um ættleiðingar.

Í fyrsta lagi er lagt til að ef sótt er um framlengingu á forsamþykki til ættleiðingar barns og forsamþykkið hefur verið gefið út á síðustu fjórum árum og umsókn um ættleiðingu er til umfjöllunar hjá erlendu ættleiðingaryfirvaldi verði ekki skylt að leita umsagnar barnaverndaryfirvalda nema hagir umsækjenda hafi breyst verulega að mati sýslumanns.

Í öðru lagi er lagt til að gildistími forsamþykkis til ættleiðingar barns verði lengdur úr tveimur árum í þrjú ár.

Sú þróun hefur átt sér stað í ættleiðingarmálum hér á landi að sá tími sem líður frá því að forsamþykki til ættleiðingar barns erlendis frá er gefið út og þar til upplýsingar um barn sem laust er til ættleiðingar berast umsækjendum hefur lengst til muna frá því sem verið hefur. Meginástæða þess virðist vera sú að færri börn koma frá þeim ríkjum sem láta frá sér börn til ættleiðinga á Vesturlöndum.

Samkvæmt lögum um ættleiðingar er þeim sem er búsettur hér á landi óheimilt að ættleiða erlent barn nema fá til þess forsamþykki frá sýslumanni. Við setningu laganna var á sínum tíma ákveðið að gildistími slíks forsamþykkis skyldi vera tvö ár sem væri u.þ.b. sá tími sem það tæki að ljúka ættleiðingarferli á barni erlendis frá. Með lögum nr. 69/2006 var dómsmálaráðherra, sem samkvæmt þágildandi ættleiðingarlögum gaf út forsamþykki, veitt heimild til þess að framlengja gildistíma forsamþykkis í allt að 12 mánuði. Var það gert svo unnt væri að koma til móts við þá væntanlegu kjörforeldra sem fengju upplýsingar um barn til ættleiðingar um það leyti sem gildistími forsamþykkis væri að renna út.

Biðtími eftir barni til ættleiðingar erlendis frá hefur nú enn lengst og ef fram heldur sem horfir er líklegt að algengara verði að framlengja þurfi gildistíma forsamþykkis. Til hagsbóta fyrir væntanlega kjörforeldra og einföldunar á allri málsmeðferð er því lagt til í frumvarpi þessu að gildistími forsamþykkis sé lengdur úr tveimur árum í þrjú. Áfram er gert ráð fyrir að í undantekningartilvikum verði unnt að framlengja gildistíma forsamþykkis um tólf mánuði frá útgáfu þess enda ekki útilokað að þær aðstæður skapist að réttmætt geti verið að grípa til slíkra framlenginga. Er þá jafnframt lagt til að sýslumanni verði í þeim tilvikum að forsamþykki hefur verið gefið út á síðustu fjórum árum og umsókn um ættleiðingu er til umfjöllunar hjá erlendu ættleiðingaryfirvaldi ekki skylt að leita umsagnar barnaverndarnefndar nema hagir umsækjenda hafi breyst verulega að mati sýslumanns.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.