135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[15:53]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér er mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Bjargráðasjóð þar sem lagt er til að sjóðurinn verði lagður niður. Ég vil fyrst segja að það vekur nokkra furðu þegar þetta mál er tekið fyrir að það beri að með svo hröðum hætti sem raun ber vitni. Hér þurfti í upphafi þingfundar að óska eftir afbrigðum til að fá að taka þetta frumvarp á dagskrá og er engu líkara en hæstv. samgönguráðherra liggi lífið á við að koma frumvarpinu í gegn. Ég vil þó segja strax í upphafi þessarar umræðu að ég tel að hér sé á ferðinni býsna stórt mál sem full ástæða er til að ræða ítarlega um. Ég áskil mér allan rétt til þess á vettvangi samgöngunefndar að taka þann tíma sem mér gefst til að fjalla um málið þar, leita umsagnar og fá viðbrögð þeirra aðila sem hér eiga hagsmuna að gæta. Ég vil sem sagt að það komi strax fram í upphafi að ég tel ekki að það sé svo brýnt að fá niðurstöðu þá sem frumvarpið gerir ráð fyrir að málið megi ekki fá eðlilega umfjöllun hér. Ég kalla það ekki eðlilega umfjöllun þegar taka þarf málið á dagskrá með afbrigðum. Það er greinilega verið að leggja upp með að það eigi að fara hraðferð gegnum þingið og ég gagnrýni það.

Menn geta þar fyrir utan haft ýmsar skoðanir á því hvort eðlilegt sé að gera þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég þekki mjög vel þær umræður sem átt hafa sér stað, sérstaklega á vettvangi sveitarfélaganna á undanförnum árum og missirum. Þar hefur einkum og sér í lagi verið rætt að ekki sé eðlilegt að sveitarfélögin séu þátttakendur í Bjargráðasjóði með þeim hætti sem hingað til hefur verið gert. Því hefur verið haldið fram að Bjargráðasjóður hafi verið settur á laggirnar á sínum tíma til að standa undir afleiðingum af einhvers konar hallæri eða þess háttar í sveitum landsins sem er vafalaust alveg rétt. Þess vegna hafi hann verið nauðsynlegur en nú sé ekki lengur sá tími sem þá var, þegar lögin voru sett á öndverðri 20. öld, þess vegna sé ástæða til að gera þær breytingar sem hér eru lagðar til. Ég ætla ekki að gera lítið úr þessu viðhorfi. Ég skil þetta sjónarmið mætavel og hef verið þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að endurskoða þetta fyrirkomulag m.a. að því er lýtur að aðkomu sveitarfélaganna að málinu. Mér finnst þó fullmikið sagt þegar sagt er í umsögn stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga frá því í október sl. að starfsemi Bjargráðasjóðs sé miklu fremur atvinnumál tiltekinna starfsgreina en sveitarstjórnarmál. Þar með er gefið í skyn að það komi sveitarfélögunum ekki við. Mér finnast atvinnumál koma sveitarfélögunum við þótt þau séu ekki sveitarstjórnarmál í sjálfu sér. Atvinnumál byggðanna og sveitarfélaganna eru að sjálfsögðu mál er varða sveitarstjórnirnar, að sjálfsögðu. Þar með er ekki endilega sagt að þau eigi að koma að Bjargráðasjóði með þeim hætti sem verið hefur.

Ég vil líka segja að ég hef aðeins kynnt mér með hvaða hætti þetta mál hefur borið að Bændasamtökunum. Eftir því sem mér er sagt — það eru vísu kannski eitthvað misvísandi fregnir af þeim vettvangi — var ekkert samráð haft t.d. við forustu Bændasamtakanna um að þetta mál væri núna á leið inn í þingið. Virðist þá vera sama háttalag á þessu hjá hæstv. ríkisstjórn eins og þegar matvælafrumvarpið var afgreitt inn í þingið. Ekki var haft samráð við stóra hagsmunaaðila þá en í þessu máli eru Bændasamtökin stór hagsmunaaðili. Ég gagnrýni það líka, virðulegi forseti, að það virðist eins og ekki hafi verið haft viðhlítandi samstarf eða samráð við þá aðila sem hér hafa eðlilega átt mikilla hagsmuna að gæta.

Það er rétt sem hæstv. samgönguráðherra segir í framsöguræðu sinni að sjónarmið búgreinafélaganna eru aðeins mismunandi. Sumar búgreinar eru ekki aðilar að þessum sjóði eins og þar kom réttilega fram og aðrar hafa þar mikla hagsmuni. Sumar vilja fara út, a.m.k. að einhverju leyti. Hér var sérstaklega vísað til Landssambands kúabænda en á minnisblaði sem ég hef undir höndum frá nefndinni sem endurskoðaði framtíðarhlutverk Bjargráðasjóðs segir m.a. að eindreginn vilji félags Landssambands kúabænda hafi verið að greinin hyrfi út úr búnaðardeild Bjargráðasjóðs. Hins vegar hafi samtökin viljað vanda sig og lagt áherslu á ítarlegan undirbúning frekar en að vinna málið hratt. Hér virðist mér sem sagt að verið sé að vinna þetta mál giska hratt og mér finnst það ekki við hæfi með svona stórt mál.

Í greinargerð með frumvarpinu varðandi afstöðu Sambands ísl. sveitarfélaga kemur eftirfarandi fram á bls. 4, með leyfi forseta:

„Hafa fulltrúar sambandsins rætt málið við ráðherra sveitarstjórnarmála á undanförnum missirum en jafnframt lagt áherslu á að ná þyrfti sátt við Bændasamtök Íslands um málið.“

Þetta segir í greinargerðinni þannig að þar er líka aðkoma af hálfu sveitarfélaganna. Þau vilja þrátt fyrir allt að þau fari út úr Bjargráðasjóði sem ég ætla ekki að gera ágreining um, alls ekki. Ég vil ekki að ég sé misskilinn með þeim hætti en þau segja samt sem áður að það þurfi að ná sátt um þetta mál. Mér sýnist af þeim gögnum sem ég hef um þetta mál, á þeim flýti sem málið kemur inn í þingið og þeim samtölum sem ég hef átt við Bændasamtökin að ekki hafi verið leitað nægilegs samráðs og samstöðu um framgang málsins.

Í gögnum þessa máls bls. 5 í greinargerð varðandi skiptingu þessa sjóðs segir, með leyfi forseta:

„Sú uppskipting þarf ekki að leiða til þess að starfsemi Bjargráðasjóðs verði lögð niður.“

Gott og vel. Með því eru menn auðvitað að viðurkenna að sjóðurinn hafi hlutverki að gegna og að starfsemin gagnvart þessari atvinnugrein sé mikilvæg en í þessu frumvarpi segir ekkert um hvað tekur við heldur er aðeins sagt: Þetta eru þá málefni atvinnugreinarinnar og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Þá spyr ég: Tala þessir ráðherrar ekki saman? Voru þeir kannski ekki saman á ríkisstjórnarfundi þegar málið var afgreitt þar? Var landbúnaðarráðherra kannski ekki á ríkisstjórnarfundinum þegar þetta mál var afgreitt út úr ríkisstjórn? Hefur hæstv. samgönguráðherra fjallað um það eða rætt það við landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hvað taka á við? Mér finnst mjög mikilvægt að svör fáist við því við meðferð þessa máls. Á sama tíma og verið er að leggja til að Bjargráðasjóður verði lagður niður sem á m.a. að liðsinna þessari atvinnugrein þegar áföll dynja yfir þá er inni í þinginu matvælafrumvarp þar sem gert er ráð fyrir því að opnað verði fyrir innflutning á fersku kjöti. Hvað stendur upp úr hjá þeim aðilum sem komið hafa til að veita umsagnir um það mál? Jú, það er sjúkdómahætta og aftur sjúkdómahætta. Það er það sem menn tala um. Ætli menn hefðu ekki viljað hafa traustan bakhjarl, landbúnaðurinn, við þær aðstæður til að takast á við hugsanleg áföll af þeim sökum hvort sem það er Bjargráðasjóður eða Lánasjóður landbúnaðarins, blessuð sé minning hans, eða aðrir slíkir sjóðir? Þetta vil ég leyfa mér að gagnrýna. Ég tel sem sagt að hér sé ekki nægilega vandaður undirbúningur á ferðinni. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að ég er ekki með því að segja að ég sé andvígur því að hlutverki Bjargráðasjóðs verði breytt, að sveitarfélögin verði leyst undan því að vera aðilar að honum. Ég er ekki fyrir fram andvígur því en ég gagnrýni með hvaða hætti þetta mál ber að. Ég gagnrýni samráðsleysið við samtök bænda og spyr hæstv. samgönguráðherra um leið, af því að ég hef þegar nefnt tvö mál sem koma nú inn í þingið sem varða landbúnaðinn miklu og voru ekki rædd við samtök bænda fyrir fram: Er von á fleiri slíkum málum frá hæstv. ríkisstjórn inn í þingið þar sem þessi mikilvægu samtök eru sniðgengin? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það.

Síðan er fjallað í þessu frumvarpi um eign sjóðsins og hvernig á að skipta henni. Þar er gert ráð fyrir að hún skiptist í jöfnum hlutföllum milli þessara þriggja eignaraðila sem eru ríkið, sveitarfélögin og Bændasamtökin. M.a. er gert ráð fyrir því að hlutur sveitarfélaganna renni til Sambands ísl. sveitarfélaga til að standa undir lífeyrisskuldbindingum starfsmanna Bjargráðasjóðs m.a. og kaup á fasteign sjóðsins. Ég ætla ekki að hafa sérstaka skoðun á þessu en ég spyr hins vegar: Hefur hæstv. ráðherra á takteinum upplýsingar um það hver raunveruleg eign þessara aðila er í sjóðnum? Hún er áreiðanlega ekki í þremur jöfnum hlutum eins og hér er gert ráð fyrir að andvirði sjóðsins verði skipt í. Kemur til álita af hálfu ríkisstjórnarinnar — hæstv. ráðherra — að hann gefi yfirlýsingu um að það fjármagn sem er í eigu Bændasamtakanna og ríkisins í þessum sjóðum fari áreiðanlega annaðhvort í breyttan sjóð eða annan sjóð til að gegna því mikilvæga hlutverki sem við hljótum öll að vera sammála um að þurfi að gera að því er varðar landbúnaðinn? Það kemur reyndar fram í greinargerð með frumvarpinu sem ráðherrann mælti fyrir að það sé mikilvægt. Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Ákvörðun um hvort starfsemi Bjargráðasjóðs verði fram haldið með breyttu fyrirkomulagi sem tryggingasjóði einstakra búgreina er eðlilegast að ræða og taka á vettvangi landbúnaðarins, milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og Bændasamtakanna, án afskipta sveitarfélaganna.“

Gott og vel. En er þá ríkisstjórnin reiðubúin til að tryggja að það fjármagn sem er í þessum sjóði fari í þetta verkefni eftir sem áður? Með hvaða hætti sér ríkisstjórnin það þá fyrir sér? Af hverju er það þá ekki sýnt í þinginu um leið og þetta frumvarp kemur fram hvernig á að taka á því? Þetta finnst mér sárlega vanta upp á málið og ég mun að sjálfsögðu kalla eftir þessum upplýsingum um viðbrögð við því þegar málið kemur til umfjöllunar í nefnd.

Ég vil líka segja varðandi tryggingamál að mér finnst það vera ábyrgðarlaust að ætla bara að vísa þessari atvinnugrein algerlega á hinn frjálsa tryggingamarkað vegna þess að við vitum að tryggingafélögin munu ekki geta tekið að sér þessar skuldbindingar með viðunandi hætti eða veitt þá þjónustu eða tryggingar sem landbúnaðurinn þarf á að halda við þessar aðstæður. Við ræðum í vaxandi mæli um fæðuöryggi, hreina ómengaða matvöru. Allt þetta skiptir máli og það er mjög brýnt að mínu mati að landbúnaðurinn sé vel í stakk búinn til að takast á við þessar ögranir sem eru að sjálfsögðu breyttar kröfur neytenda í sambandi við matvælaöryggi. Þess vegna finnst mér ekki sanngjarnt að segja það í sambandi við þetta mál að tveir þriðju hlutar íbúa sveitarfélaganna búi á suðvesturhorninu og að þeim komi landbúnaður ekki við, eins og er nánast sagt hér. Og þó að landbúnaður sé ekki stundaður í þéttbýlinu, á höfuðborgarsvæðinu að neinu marki nema að vísu á Kjalarnesi í Reykjavíkurkjördæmi norður, sem ég er þingmaður fyrir, þá er ekki hægt að halda því fram með neinni sanngirni að matvælaframleiðslan í landinu, landbúnaðurinn, komi ekki íbúum á höfuðborgarsvæðinu við, matvælaöryggið og allt það. Mér finnst menn þarna taka ansi mikið upp í sig. Ég leyfi mér að gagnrýna það og vara við því að menn gangi þannig um þetta mál. Síðan eru þættir sem Bjargráðasjóður á jafnframt að taka á, tjón af völdum náttúruhamfara og ýmislegt annað sem við erum ekki laus við hér á landi til framtíðar jafnvel þótt Samfylkingin sé komin í ríkisstjórn. Með einhverju móti þarf því að setja undir þennan leka sem augljóslega verður, verði frumvarpið óbreytt að lögum, þ.e. verði sjóðurinn lagður niður án þess að við höfum neitt fyrir framan okkur með hvaða hætti sinna á þeim brýnu verkefnum og því hlutverki sem sjóðurinn hefur í dag og hefur sinnt.

Hér eru, frú forseti, margvíslegar athugasemdir af minni hálfu við þetta mál, m.a. að það skuli bera að með því hraði sem raun ber vitni. Ég hef margvíslegar efnislegar athugasemdir við hvernig afgreiða á málið. Það er alla vega upplegg ríkisstjórnarinnar að afgreiða það án þess að hafa svör við því hvað tekur við. Mér finnst skipta miklu máli að svörin við því liggi fyrir. Ég ítreka enn og aftur að ég geri ekki athugasemd við að breyta eigi fyrirkomulagi Bjargráðasjóðs, að taka eigi sveitarfélögin út og leysa þau undan þessari ábyrgð. Ég skil það sjónarmið mætavel og hef sjálfur tekið þátt í að móta þá afstöðu á vettvangi sveitarfélaganna. Það þýðir þó ekki að fara megi í þetta mál með hvaða hætti sem er og án þess að leita að þeirri breiðu samstöðu og sátt sem þarf að sjálfsögðu að ríkja um málið.