135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[16:16]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég hef fylgst með umræðunni sem hér fer fram um frumvarp til laga um brottfall laga um Bjargráðasjóð, hef hlýtt á framsöguræðu hæstv. ráðherra og ræður þeirra þingmanna sem hafa tekið til máls. Taka má undir margt af því sem kom fram í málflutningi þeirra og auðvitað verður farið yfir þau mál í þingnefnd. Það eru þó örfá atriði sem ég vil aðeins koma að.

Ástæða þess að ég vil fara aðeins yfir þau er að ég hef unnið um nokkuð langan tíma við hliðina á Bjargráðasjóði og þekki nokkuð til starfa þar. Það mun hafa verið Samband garðyrkjubænda, eða garðyrkjuframleiðendur á Íslandi, sem ekki er nefnt í athugasemdum við frumvarpið sem fyrst búgreinafélaga sagði sig frá Bjargráðasjóði. Það var af þeirri einföldu ástæðu, en ég var þar á þeim tíma í forustu fyrir þá búgrein, að menn greiddu til sjóðsins tiltekið iðgjald en höfðu aldrei fast land undir fótum hvað varðaði bætur. Það voru nefnilega engir skilmálar ákveðnir fyrir fram í þessum tryggingasjóði. Þess vegna var það að um og upp úr árinu 1980 fór sú búgrein á frjálsa tryggingamarkaðinn og leitaði eftir skilmálum við þau tryggingafélög sem þá voru starfandi, sem mörg hver hafa sameinast núna og heita öðrum nöfnum, og búnir voru til skilmálar í samstarfi búgreinarinnar og þessara tryggingafélaga. Þeir tryggingaskilmálar hafa þróast og tekið mið af skilmálum í nágrannalöndum okkar. Ég álít að þetta fyrirkomulag hafi skilað sér mjög vel hvað þessa búgrein varðar og þess vegna hef ég í sjálfu sér ekkert á móti því að menn taki það upp og skoði hvort halda eigi áfram í þá veru sem verið hefur hjá þessum gamla sjóði sem er frá 1913. Ég held þar af leiðandi að við eigum að ganga óbundin og opin að því að skoða þessi mál. Hins vegar má ekki horfa fram hjá því að aðstæður búgreinanna eru mismunandi og það er kannski það sem taka verður tillit til. Þess vegna finnst mér og fannst þegar sú lagabreyting var gerð líklega 1995 að búgreinafélögin gátu sjálf ákveðið hvort þau greiddu í eða væru með í sjóðnum að ef nú er að koma í ljós að Landssamband kúabænda ætlar að fara úr sjóðnum og það er sú búgrein sem borgar sennilega vel yfir 50–60% og jafnvel meira af iðgjöldunum í sjóðinn, augljóst að það hljóti að vera kominn tími til að skoða hvort ekki sé rétt að fara öðruvísi að hvað þessar tryggingar varðar.

Mig langar aðeins í minni stuttu ræðu að spyrja hæstv. ráðherra um þann hluta frumvarpsins sem varðar slit sjóðsins, hvernig fara eigi með þá fjármuni sem um er að ræða sem eru tæpar 700 millj. en það kemur fram í frumvarpinu að þeir skiptist á þrjá ólíka aðila. Það kom fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra að 290 millj. kæmu í hlut Sambands íslenskra sveitarfélaga sem ráðstafi þeim til kaupa á fasteign sjóðsins og í lífeyrissjóðsskuldbindingar. Mér finnst það kannski ekki óeðlilegt að sambandið geti ráðstafað þeim fjármunum. Hins vegar kom ráðherra ekki inn á hlut ríkisins, hvort ráðstafa ætti honum fyrir fram eða hvort hann ætti bara að leggjast inn í ríkissjóð sem skattur. Það var heldur ekki farið yfir það hvernig ráðstafa ætti hlut Bændasamtaka Íslands en það eru fjölmenn samtök og mikil breidd þar. Hugmynd mín í þessu efni er, og ég vil koma henni á framfæri í þessari umræðu, að þeir fjármunir sem ekki eru bundnir eins og þeir sem greint hefur verið frá að renni til húsnæðiskaupa Sambands íslenskra sveitarfélaga og lífeyrissjóðsskuldbindinga, renni óskertir til Lífeyrissjóðs bænda.

Alþingi samþykkti lögin um Bjargráðasjóð og að ríkissjóður borgaði í þann sjóð sem ákveðið væri í fjárlögum hverju sinni. Það var ákveðið að sveitarfélögin borguðu tiltekið gjald til þessarar atvinnugreinar og hún fengi að njóta þess. Alþingi samþykkti líka lög um Lífeyrissjóð bænda sem eru líklega síðan 1971 og illu heilli voru ákveðnar hámarksinngreiðslur í þann lífeyrissjóð. Reiknað var út eitthvert vísitölubú og bændur borguðu í lífeyrissjóðinn samkvæmt því vísitölubúi og þeir sem voru með stærri búrekstur fengu endurgreitt í lok hvers uppgjörsárs. Réttindi bænda eru þar af leiðandi mjög lítil í Lífeyrissjóði bænda. Það er að stórum hluta Alþingi að kenna og mér finnst þingið bera ábyrgð á því.

Þess vegna legg ég til að sá hluti sem ekki bundinn í sérstökum greiðslum eins og vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga og húsnæðis sjóðsins renni beint til Lífeyrissjóðs bænda. Það væri myndarlegt af Alþingi að samþykkja að þeir fjármunir, u.þ.b. 600 millj., færu beint inn í Lífeyrissjóð bænda og mundu nýtast bændum þar eins og til var stofnað með þeim lögum og því framlagi sem þessir aðilar hafa lagt til Bjargráðasjóðs og átti að nýtast þessari atvinnugrein. Þá værum við að sýna svolítinn myndarskap gangvart þessum lífeyrissjóði sem er afskaplega veikur í dag.