135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[16:36]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hér hafa komið og tjáð sig um þetta frumvarp. Það kemur mér satt að segja svolítið á óvart ýmislegt sem hér hefur komið fram. Hér hafa reyndar a.m.k. tveir þingmenn, sem hafa verið frekar andvígir frumvarpinu, talað um að það sé eðlilegt að endurskoða lögin og þátttöku sveitarfélaga og annarra í þessu og lög sjóðsins þá í heild sinni. Taka ber fram að á fundi Bjargráðasjóðs 7. desember 2005 var samþykkt að gera úttekt á framtíðarhlutverki sjóðsins og tryggingum í landbúnaði í samráði við Bændasamtök Íslands. Úttektina á að vinna af sérfróðum aðilum og eru tryggingar laga og búrekstrar í samræmi við áðurnefnda aðila. Í framhaldi af því samþykkti stjórn Bjargráðasjóðs 2. mars 2006 að skipa nefnd til að fjalla um framtíðarhlutverk sjóðsins í samráði við stjórnarmenn. Óskað var eftir tilnefningum í nefndina frá Bændasamtökum Íslands, félagsmálaráðuneytinu, landbúnaðarráðuneytinu og Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Þetta kom fram strax 7. desember 2005 og stjórn Bjargráðasjóðs samþykkti þetta 2. mars 2006. Þá hóf stjórn Bjargráðasjóðs, sem fyrrv. félagsmálaráðherra, ráðherra Framsóknarflokksins, hefur þá væntanlega skipað í, þetta verk. Þess vegna kemur mér það dálítið spánskt fyrir sjónir þeir framsóknarmenn, sem hér hafa talað um þetta mál, skuli koma algjörlega af fjöllum vegna þess að mér sýnist að verkið hafi hafist í þeirra tíð. Það verður líka að taka skýrt fram að það mál sem hér er rætt um hafa fulltrúar sambandsins rætt við fyrrverandi ráðherra sveitarstjórnarmála á undanförnum missirum. Það gerðist fyrir áramót áður en sveitarstjórnarmál fluttust í samgönguráðuneytið. Fulltrúar þessara samtaka hafa ekkert rætt við mig eftir að sveitarstjórnarmál fluttust í samgönguráðuneytið, þannig að það sé alveg á hreinu.

Á þessum tíma var að frumkvæði þeirrar nefndar sem fyrrv. félagsmálaráðherra skipaði, gerður samningur við ráðgjafarfyrirtækið ParX þann 22. júní 2007 um að kanna viðhorf hagsmunaaðila til Bjargráðasjóðs. Síðan er málið rakið alveg lið fyrir lið í IV. kaflanum á bls. 4 þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga tekur skýra afstöðu. Það vill leggja sjóðinn niður í núverandi mynd og afnema framlög sveitarfélaga til hans sem voru á síðasta ári 40 milljónir.

Síðan kemur hér fram að Landssamband kúabænda, sem einnig hefur tekið skýra afstöðu, vill að búgreinin hætti þátttöku í búnaðardeild Bjargráðasjóðs.

Virðulegi forseti. Eftir því sem ég kemst næst eru tveir fulltrúar tilnefndir af stjórn Bændasamtakanna sem eru í stjórn sjóðsins, þeir Hörður Harðarson og Guðbjartur Gunnarsson. Þeir eru tilnefndir í stjórn sjóðsins af Bændasamtökunum. Þetta hlýtur þá allt saman að vera gert í fullu samráði við þá en ég tek skýrt fram að málið kom inn á mitt borð síðar. Þótt þetta mál hafi komið hér inn með afbrigðum og verið sé að drífa það í gegn þá er það ekki endilega þannig að mikið liggi á. Ég segi við hv. samgöngunefnd að hún skuli auðvitað taka þann tíma sem hún þarf í þetta mál. Það er ekkert kappsmál frá minni hálfu að þessu máli ljúki endilega fyrir þingfrestun í lok maí. Nefndin getur farið í gegnum það líka og tekið það þá upp á septemberfundum okkar hér ef við viljum fara í gegnum það frekar. Það liggur ekki þannig á að koma málinu í gegn. Aðalatriðið er að samgöngunefnd sendi málið út og kalli eftir viðbrögðum við því sem hér kemur fram.

Í framhaldi af skýrslu ParX var samþykkt bókun í stjórn Bjargráðasjóðs 12. október 2007 um framtíðarhlutverk sjóðsins. Þar er lagt fram minnisblað frá 10. október og 11. október. Þarna er m.a. Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs, sem jafnframt er framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga. Á þeim fundi kom fram skýr vilji fulltrúa sveitarfélaganna um að aðkomu þeirra að sjóðnum verði hætt og lýstu aðrir nefndarmenn skilningi sínum á því sjónarmiði.

Síðan er umræðu haldið áfram um að þetta verði fært frá sveitarfélögunum og segir hér á bls. 5:

„Í samræmi við það voru unnar tillögur um með hvaða hætti eignum og skuldbindingum sjóðsins verði skipt upp milli eigenda. Fyrirkomulagi í tryggingamálum landbúnaðarins er síðan vísað til umræðu á vettvangi Bændasamtaka Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.“

Þetta er sett hér svona fram, virðulegi forseti, og er í sjálfu sér ekkert meira um það, það skýrir sig sjálft í frumvarpinu. Ég tók eftir m.a. að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson taldi mjög eðlilegt að endurskoða þetta ákvæði og, eins og hann orðaði það sjálfur, að sveitarfélögin yrðu leyst undan þessari þátttöku. Sama heyrðist mér koma fram hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur um að nauðsynlegt væri að endurskoða málið þó að landbúnaðurinn standi höllum fæti gagnvart innflutningi á hráu kjöti og öðru slíku. Nú er það ekki þannig að Bjargráðasjóður muni koma inn í það verkefni.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, um leið og ég þakka fyrir þessa umræðu, að segja að mér finnst bara eðlilegt að samgöngunefnd taki sér þennan tíma til að ræða málið. Frá minni hálfu þarf málinu ekki að ljúka fyrir maílok þegar áætlað er að fresta þingi. Við getum tekið það upp í september og unnið þetta áfram.