135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[16:43]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. samgönguráðherra að ekkert liggi á af hans hálfu þannig að ljúka þurfi meðferð málsins hér í þinginu fyrir þingfrestun í vor. En það fer ekkert hjá því að þegar mál ber að með þeim hætti eins og gerðist í dag að m.a. er óskað eftir afbrigðum til að koma því á dagskrá, þá læðist að mér sá grunur að mönnum liggi óskaplega mikið á. Ég fagna yfirlýsingu hans sem flytjanda þessa frumvarps að ekkert liggi á. Það sé þá samgöngunefndarinnar að taka ákvörðun um hvaða tíma hún tekur til umfjöllunar um málið og velti því fyrir sér.

Hins vegar komu fram hér nokkrar spurningar, m.a. af minni hálfu, sem lutu m.a. að samráðinu sem haft hefði verið við viðkomandi hagsmunaaðila. Ég minni hér á handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem er merkilegt skjal og gefið er út af forsætisráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og skrifstofu Alþingis. Mér leikur forvitni á að vita að hve miklu leyti það hafi verið haft til hliðsjónar við undirbúning og vinnslu þessa máls.

Síðan spurði ég líka hæstv. ráðherra að því hvort hann hefði upplýsingar um það hvernig eign sjóðsins í dag skiptist milli þeirra sem eru eignaraðilar í samræmi við þær inngreiðslur sem hafa komið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að því sé skipt í þrjá jafna hluta. Ég spyr því enn: Liggja fyrir upplýsingar um það hver hin raunverulega innborgun hvers aðila um sig er í sjóðinn og hvernig er eignarhlutföllunum þá skipt?