135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[16:46]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú kann vel að vera að það sé rétt að fulltrúar Bændasamtakanna í stjórn Bjargráðasjóðs hafi gert að einhverju leyti grein fyrir þessu ferli eins og það hefur blasað við þeim gagnvart stjórn eða forustu Bændasamtakanna. Mínar upplýsingar eru hins vegar að þær hafi ekki að minnsta kosti skilað sér til forustu Bændasamtakanna. Hún kvartar yfir því að hafa ekki vitað af málinu fyrr en í raun á síðustu stundu, að það væri að koma inn í þingið.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt að forusta Bændasamtakanna hafi óskað eftir fundi með honum um málið og hvort slíkur fundur hafi farið fram eða hvort ekki hafi verið orðið við beiðni forustu Bændasamtakanna um fund með hæstv. samgönguráðherra til þess að fjalla um þetta mál og hvort ekki sé eðlilegt þegar hæstv. ráðherra mælir fyrir máli af þessum toga sem varðar svona mikla hagsmuni að hann sjálfur gangi að minnsta kosti úr skugga um það hvernig samráðinu hefur verið hagað.