135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[16:51]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, Bændasamtökin verða auðvitað að eiga það við sína fulltrúa í stjórn Bjargráðasjóðs ef ekkert samráð hefur verið þar á milli, ef fulltrúarnir í stjórn Bjargráðasjóðs eru ekki að vinna með þeim sem skipa þá í nefndina. Mér finnst það mjög skrýtið ef það er eins og Bændasamtökin segja, þ.e. að þau hafi haft spurnir af þessu. Þau hefðu átt að hafa spurnir af því frá þessum fulltrúum. Þeim á líka að vera kunnugt um það vegna þess að þeir áttu fulltrúa í þessari nefnd samkvæmt því sem kemur hér fram í IV. kafla á blaðsíðu 4 við þessa endurskoðun.

Hitt varðandi ráðherra Framsóknarflokksins þá ég lít ekkert á að það sé útúrsnúningur þó að menn nefni ráðherra Framsóknarflokksins af og til vegna þess að þeir eiga sér ákveðna forsögu og þingflokkur Framsóknarflokksins. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að maður sér þetta hér vegna þess að mín aðkoma að þessu máli hefst frá og með síðustu áramótum. Ég tek eftir því að 2. mars 2006 er þetta rætt í stjórn Bjargráðasjóðs og 7. desember 2005.

Ég hef aldrei skipað neinn mann í þessa stjórn. Ég hef ekki gert það þannig að þetta er auðvitað forvinna sem er búin að eiga sér stað. Nú veit ég ekkert hvort menn vilji kannast við það. En svona er þetta bara hins vegar. Þetta eru þær staðreyndir sem við okkur blasa, það sem kemur hér fram, hvernig er búið að vinna að þessum undirbúningi. Bændasamtökin eiga tvo fulltrúa í stjórninni.

Varðandi tryggingar á almennum markaði og óvissu, þá veit ég ekkert um það en vísa í það sem talað er um hérna að verði þessi uppskipting þá leiðir hún ekki endilega af sér að starfsemi Bjargráðasjóðs verði lögð niður. En ákvörðun um hvort starfsemi Bjargráðasjóðs verði framhaldið með breyttu fyrirkomulagi sem tryggingasjóður einstakra búgreina er eðlilegast að ræða og taka á vettvangi landbúnaðarins milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og Bændasamtaka án afskipta sveitarfélaganna.