135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[16:56]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af því sem hv. þingmaður sagði fyrst um hvað komi í staðinn og að ég hefði ekki viljað svara því. Ég var að enda við að svara hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni því sem kemur hérna fram og skal þá lesa það aftur, með leyfi forseta:

„Sú uppskipting þarf ekki að leiða til þess að starfsemi Bjargráðasjóðs verði lögð niður. Ákvörðun um hvort starfsemi Bjargráðasjóðs verði fram haldið með breyttu fyrirkomulagi sem tryggingasjóði einstakra búgreina er eðlilegast að ræða og taka á vettvangi landbúnaðarins, milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og Bændasamtakanna, án afskipta sveitarfélaganna.“

Hérna stendur þetta bara og er sett fram á blaðsíðu 5 þannig að ég tel mig hafa vera búinn að svara hv. þingmanni hvað þetta varðar.

Ég ætla ekkert að diskútera það eða rökræða við þingmenn Framsóknarflokksins um forsögu málsins. Ég vakti bara athygli á því að þetta mál á sér langan aðdraganda. Það hefst, eins og ég segi, með fundi stjórnar Bjargráðasjóðs 7. desember 2005 og stjórn Bjargráðasjóðs samþykkir 2. mars 2006 — sú stjórn sem þá var — að fá nefnd til að fjalla um framtíðarhlutverk sjóðsins í samráði við stjórnarmenn. Þar eru tveir fulltrúar Bændasamtakanna. Jafnframt var óskað tilnefningar í nefndina frá Bændasamtökum Íslands, félagsmálaráðuneytinu — sem þá var ráðuneyti sveitarstjórnarmála — landbúnaðarráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Afraksturinn af því er sá sem hér kemur fram.

Varðandi spurningu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur til mín um hvort ég hafi haft samráð við Bændasamtökin um þetta mál er svarið við því nei. Ég hef ekki átt neinn sérstakan fund með stjórn Bændasamtakanna út af þessu máli. Svo hefur ekki verið. Hins vegar ítreka ég það sem ég sagði áðan um tvo fulltrúa Bændasamtakanna í stjórninni og að þetta hljóti að hafa verið gert. Fulltrúar Bændasamtakanna hljóta að hafa haft samband við sín heildarsamtök við undirbúning þessa máls.