135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[16:59]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að miðað við þennan málflutning fulltrúa Framsóknarflokksins með sína fortíð í þessu máli sé Framsóknarflokkurinn, held ég, að reyna að slá hér pólitískar keilur til að koma sér í mjúkinn hjá bændum.

Grundvallaratriðið er þetta, sem ég hef margoft sagt og hv. þingmaður gerir sér fullkomlega gein fyrir og hún hefur líka setið sem ráðherra, að fulltrúar Bændasamtakanna í stjórninni hljóta að hafa haft samband við sín samtök um þetta mál. Ég get ekki vitað til þess hvenær einhver ágreiningur er hugsanlegur eða ekki og kallað til fulltrúa hinna og þessara samtaka til skrafs og ráðagerða um svona mál. Það hljóta þau að gera.

Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan: Þá hlýtur líka undirbúningsvinnan að hafa verið unnin með fullum vilja eða má ég spyrja hv. þingmann að því, virðulegi forseti, hvort fyrrverandi félagsmálaráðherrar, ráðherrar Framsóknarflokksins, hafi kallað fulltrúa úr þessari stjórn inn til sín til að vinna að undirbúningi þessa máls. (Gripið fram í: Það kemur ekki svar.)