135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:34]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður saknaði þess að ríkisstjórnin væri ekki viðstödd þessa umræðu (Gripið fram í.) og lítur svo á að 4 milljónir til að stemma stigu við verðhækkunum séu grín. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ríkisstjórnin er ekki að fara að tillögu Framsóknarflokksins í efnahagsmálum, sem kom fram á þinginu í gær, um að hún segi af sér. Það er verið að vinna að allt öðrum hlutum.

Ég held að allir deili áhyggjum þingmannsins af þeirri þróun sem uppi er í íslensku samfélagi og efnahagslífi landsins sem birtist okkur mjög grimmilega þessa dagana. Við getum séð að hækkanir á verði erlends gjaldeyris hafa verið um 25% frá áramótum og óhjákvæmilega hlýtur það að koma fram á öllum sviðum þjóðlífsins, ekki síst í ljósi hækkana á erlendum aðföngum, svo sem olíu og matvöru. Engu að síður lít ég svo á að eftir góðæri undangenginna ára virðast einkum þrjú heimatilbúin atriði valda þeirri miklu spennu sem ríkir hér á landi og ég vil tiltaka þau sérstaklega. Það er mikill kaupmáttur fólks, lítið verðskyn og loks vil ég nefna skort á samkeppni í verslun. Þetta eru allt þættir sem vega inn í þessa umræðu og ber líka að taka til umræðu hér.

Varðandi þessa þrjá þætti held ég að hollt sé fyrir okkur að hugleiða hvernig verðlag hefur þróast, sérstaklega þegar gengi krónunnar var að styrkjast, og spyrja okkur að því hvernig málum muni reiða af þegar hún fer að styrkjast á ný. Það er óhjákvæmilegt að fljótt mun slá á einkaneyslu í samfélaginu og við hljótum að taka tillit til þess í fjárlagagerðinni fyrir komandi ár. Við höfum rætt það hér og ég veit að það var til umræðu í fjárlaganefnd fyrir stuttu síðan (Forseti hringir.) að bráðabirgðauppgjör fyrir fyrstu þrjá mánuðina gaf ekki tilefni til aðgerða en í ljósi þeirrar þróunar sem hefur orðið nú í apríl er full ástæða til þess að fjárlaganefnd setjist niður.