135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:47]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Verðbólgumæling Hagstofunnar á síðustu dögum hefur sýnt fram á að gengisfall krónunnar hefur farið hraðar í gegn en menn áttu von á. Engar greiningardeildir, fjármálaráðuneytið eða aðrir áttu von á að þetta gengi svona hratt. Þetta segir mér að samkeppni hér á landi er ekki nægilega mikil og að menn taka ekki nægilega mikið tillit til innlends kostnaðar þegar þeir meta verðlag. Þetta ástand er mjög alvarlegt fyrir heimilin, fyrir kjarasamningana og fyrir fyrirtækin í landinu.

Krónan hefur reyndar styrkst síðan þessi mæling fór fram og nú búast allir við að þetta gangi hratt til baka og að við munum jafnvel upplifa verðhjöðnun ef krónan styrkist nægilega mikið. En ég tek undir að aðalvandinn er skortur á samkeppni og skortur á verðskyni. Svo er spurning hvort verðlag fari eins hratt niður og það fór upp. Það er nokkuð sem menn hafa tekið eftir að er ekki alltaf samræmi í.

Hvað veldur því að ég trúi því að krónan muni styrkjast? Það er gífurlegur útflutningur og aukning í útflutningi á áli sem kemur einmitt til núna þessa dagana. Það er mjög sterkur útflutningur á sjávarafurðum og verð á sjávarafurðum hefur hækkað mjög mikið erlendis. Það eru mjög sterkar útflutningsgreinar sem standa undir sterkri krónu og þess vegna mun krónan ekki falla meira. Ég geri ráð fyrir að hún styrkist frekar og endi í gengisvísitölunni 140 og jafnvel neðar.

Staða okkar er mjög góð til að mæta þessum áföllum. Hér er lítið atvinnuleysi og ríkissjóður er skuldlaus. Það er framlag ríkissjóðs til stöðugleika að hann hefur verið rekinn með afgangi í fjölda ára.