135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:50]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Síðastliðið haust flutti ég ræðu þar sem ég furðaði mig á áhuga- og stefnuleysi sjálfstæðismanna í efnahagsmálum. Svo virtist sem þjóðarskútan sigldi áfram stefnulaust og ekki væri ljóst hvert ný ríkisstjórn væri að fara. Nú liggur það ljóst fyrir. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að gera ekki neitt sýnir algjört aðgerðaleysi og beinir þjóðarskútunni beint í klettana þrátt fyrir að allar viðvörunarbjöllur glymji. Verðbólgan mælist nú 11,8% sem er það hæsta sem hún hefur mælst frá því í október 1990. Það er met. Nú er líka komið á daginn að óráðsía nýrrar ríkisstjórnar í fjárlögum reyndist, eins og við framsóknarmenn bentum á, olía á verðbólgueldinn.

Ég furða mig á ummælum hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, sem gerði grín að þessum tillögum okkar framsóknarmanna í haust, að hann komi núna fram með tillögur þess efnis að það eigi að taka þetta inn í fjárlagagerð næsta árs. Allar upplýsingar lágu fyrir við fjárlagagerð síðasta árs og það hefði hæglega verið hægt að taka þetta upp þá. Þá stæðum við ekki frammi fyrir þeim vanda sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir í dag.

Ég furða mig líka á ummælum hv. þm. Árna Páls Árnasonar sem sagði áðan að það væri gríðarlegt alvöruleysi í samfélaginu yfir þeirri stöðu sem blasir við núna. Hvað með alvöruleysi ríkisstjórnarinnar? Hún gerir ekki neitt. Mikill meiri hluti stjórnarmeirihlutans situr. Þetta eru kannski samræðustjórnmálin, að tala um hlutina en aðhafast ekki neitt. (Gripið fram í: Þrjú álver, er það lausnin?)