135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:54]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Þessi umræða er með miklum ólíkindum þar sem þingmenn Samfylkingarinnar virðast helst hafa sér til dundurs að telja álver líkt og þeir sem verða andvaka telja kindur. En hér hafa nú ekki aðrir staðið að álvæðingu en Samfylkingin á síðustu missirum. Það skiptir miklu máli að við tölum um þetta af alvöru. Þegar því er haldið fram að stjórnarandstaðan hafi ekki lagt fram tillögur í efnahagsmálum þá helgast það af því sama og að stjórnarliðum kom algjörlega í opna skjöldu á útmánuðum að það væri efnahagskreppa á heimsvísu. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson segir: Þingmenn stjórnarandstöðunnar þykjast hafa séð þetta fyrir. Þingmenn stjórnarandstöðunnar lásu einfaldlega blöðin, það stóð einfaldlega í öllum blöðum: Hrávöruverð mun hækka, hlutabréf munu fara niður. Þetta vissu allir. Og allur sá leikaraskapur sem leikinn hefur verið af stjórnarmeirihlutanum að láta eins og efnahagskreppan sem nú ríður yfir hafi komið að óvörum (Gripið fram í.) og sé algjörlega óvænt tíðindi er barnaskapur og í rauninni móðgun við þjóðina sem á það undir og hefur treyst þessari stjórn til að fara með stjórn efnahagsmála. Hún hefur algjörlega brugðist því trausti. (Gripið fram í: Af hverju ert þú ekki alþjóðlegur fjármálaráðgjafi?)

Hv. þingmaður hefur það eitt til málanna að leggja að hún spyr hví ég sé ekki alþjóðlegur fjármálaráðgjafi. Þetta lýsir mjög alvöruleysi málsins að það er aldrei hægt að ræða um hlutina hér án þess að vera í skítkasti. Við höfum lagt fram tillögur um það hvernig bregðast megi við í efnahagsmálum og það er miklu meira en þessi ríkisstjórn hefur gert og stjórnarmeirihlutinn.

Nú þegar efnahagskreppan er komin í þær hæðir að verðbólgan er komin í tveggja stafa tölu og ekkert lát þar á þá talar hv. þm. Árni Páll Árnason um að alvaran í (Forseti hringir.) samfélaginu þurfi að vera meiri. Hver á að leiða aðila vinnumarkaðarins saman? Hver á að leiða þjóðina til þess að grípa til ráðstafana ef ekki ríkisstjórn (Forseti hringir.) Íslands?