135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:59]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er nokkuð óþægilegt að rjúfa þessa umræðu núna og fara í allt annað mál þegar svo stutt er eftir af tímanum sem við höfum í þennan dagskrárlið.

Ég vildi fá að spyrja hv. formann félagsmálanefndar, Guðbjart Hannesson, um stefnu ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega Samfylkingarinnar varðandi verndaða vinnustaði eða vinnuumhverfi geðfatlaðra og þeirra sem þurfa á stuðningi að halda hvað varðar atvinnu. Ég veit að ýmislegt er í boði í dag sem ekki var fyrir nokkrum árum og var ekki í boði þegar Bergiðjan, starfsendurhæfingardeild Landspítalans, áður starfsendurhæfingarstöð Kleppsspítalans, var sett á laggirnar. En eftir sem áður stendur að 1. maí næstkomandi, eftir tvo daga, verður þessari starfsemi lokað og endurhæfing geðdeildar Landspítalans mun alfarið verða þar innan húss. Þarna vinna einstaklingar sem eiga mjög erfitt með að fara út á hinn almenna vinnumarkað þrátt fyrir að það sé með stuðningi. Það verða því miður alltaf til einstaklingar sem ekki geta verið úti á hinum almenna vinnumarkaði með stuðningi þó að góður vilji sé fyrir hendi

Því vil ég spyrja hv. formann félagsmálanefndar hvort hann og flokkur hans hafi skoðað þá stöðu (Forseti hringir.) sem upp er komin við lokun Bergiðjunnar, starfsendurhæfingardeildar Landspítalans.