135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

störf þingsins.

[14:03]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nýjar stefnur eru uppi í málefnum fatlaðra og vönduð stefna hefur verið mótuð í félagsmálaráðuneytinu í málefnum geðfatlaðra. Mig langar að minna á að geðfatlaðir eru einn af fáum hópum fatlaðra sem getur náð bata. Verið er að hverfa frá vernduðum vinnustöðum, talið er að það sé úrelt form og Bergiðjan er að verða liðin tíð. Nú er lögð áhersla á að geðfatlaðir fari út á almennan vinnumarkað, fái þar störf við hæfi og stuðning eftir þörfum eins og lög gera ráð fyrir. Endurhæfing þeirra fer þá fram í samfélaginu.

Mig langar að minna á Straumhvarfaverkefnið, sem er átaksverkefni í málefnum geðfatlaðra og er kostað af símapeningunum að hluta til, en þar er ég formaður verkefnisstjórnar. Þar hefur verið stutt verulega við ýmis fjölbreytt verkefni sem auðvelda geðfötluðum að komast út á vinnumarkaðinn. Mig langar að minna á verkefnið „Notandi spyr notanda“ þar sem geðfatlaðir spyrja aðra notendur þjónustunnar hvernig þeim líki þjónustan o.s.frv. Ég hef séð ótrúlegar framfarir í heilbrigði hjá þeim einstaklingum sem hafa starfað að þessum verkefnum.

Ég vil minna á Múlalund. Þar hefur verið stutt við verkefni sem styður þennan hóp fatlaðra út í samfélagið að nýju, út á vinnumarkaðinn. Fyrirtæki hafa lagt drjúgan skerf, ég vil minna á matvörukeðjurnar, sparisjóðinn og ýmis stórfyrirtæki. Þessi leið, að fá sína endurhæfingu úti í samfélaginu, hefur skilað ótrúlegum árangri og fjölmargir hafa náð góðum tökum á lífi sínu og jafnvel þó nokkrum bata. Þeir hafa (Forseti hringir.) þannig getað lagt sitt af mörkum til samfélagsins.