135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[14:36]
Hlusta

Flm. (Jón Magnússon) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég flyt tillögu til þingsályktunar ásamt hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, Grétari Mar Jónssyni, Atla Gíslasyni, Jóni Bjarnasyni og Ögmundi Jónassyni, þar sem segir:

„Alþingi ályktar að hlíta beri niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 24. október 2007 í máli nefndarinnar nr. 1306/2004, þess efnis að fiskveiðistjórnarkerfi Íslendinga sbr. lög nr. 116/2006, áður lög nr. 38/1990, brjóti í bága við alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland staðfesti með auglýsingu utanríkisráðherra nr. 10 frá 28. ágúst 1979 í samræmi við þingsályktun hinn 8. maí 1979. Enn fremur að breyta verður lögum um stjórn fiskveiða í samræmi við ofangreindan úrskurð til að tryggja jafnræði borgaranna, sanngirni og mannréttindi.“

Það er skemmst frá því að segja að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna tók afstöðu til þess máls sem hér um ræðir og komst að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða brot. Að Ísland bryti gegn 26. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi með því með hvaða hætti fiskveiðiréttarlöggjöfinni væri háttað.

26. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg réttindi er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Allir eru jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Lögin skulu því í þessu skyni banna hvers konar mismunun og ábyrgjast öllum mönnum jafna og raunhæfa vernd gegn mismunun svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna“, o.s.frv.

Það er þarna sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna kemst að þeirri niðurstöðu að við brjótum gegn ákvæðinu um almenn mannréttindi. Við skulum hafa það í huga að mannréttindi eru algild. Frá þeim verður ekki vikið. Í niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar varðandi meginálitaefnið hvort kærendur verði að lögum skyldaðir til að greiða samborgurum sínum fé til að afla sér fiskveiðiheimilda sem séu nauðsynlegar til eiga kost á að veiða í atvinnuskyni kvótasettar fisktegundir í eigin lögsögu segir:

Það er óeðlilegt að ákveðinn hópur fiskveiðimanna þurfi að kaupa eða leigja kvóta frá fyrri hópnum eða öðrum sem hefur keypt kvóta af honum ef þeir vilja stunda veiðar á kvótasettum fisktegundum, af þeirri einföldu ástæðu að þeir áttu ekki eða ráku fiskiskip á því tímabili sem þar er fjallað um.

Við flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu teljum að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sé ósanngjarnt. Það brjóti gegn jafnrétti manna samanber einnig jafnræðisreglu íslensku stjórnarskrárinnar. Þá telja flutningsmenn verulegan vafa leika á því að lög nr. 116/2006, um fiskveiðistjórnun samrýmist ákvæðum 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi.

Í niðurstöðum álits mannréttindanefndar segir m.a., með leyfi forseta:

Þar sem aðildarríkið hefur ekki sýnt fram á að þessi sérstaka skipan á útfærsluformi kvótakerfisins fyrir nýtingu takmarkaðra auðlinda við samninginn sem slíkan þá ályktar nefndin að í sérstökum aðstæðum fyrirliggjandi máls séu forréttindi í mynd varanlegs eignarréttar sem veitt voru upphaflegum handhöfum kvótans til óhagræðis fyrir höfundana og ekki byggð á sanngjörnum forsendum. Þ.e. til óhagræðis fyrir alla þá sem þurfa að kaupa veiðiheimildir og ekki byggðar á sanngjörnum forsendum. Það kerfi sem við búum við varðandi fiskveiðistjórnun er til óhagræðis og það er ekki byggt á sanngjörnum forsendum.

Mannréttindanefndin telur sem sagt að þarna sé um brot á 26. gr. samningsins sem ég vísaði til áðan. Og síðan segir að í samræmi við þetta sé aðildarríkið, það er Ísland, skuldbundið til að gera raunhæfa úrbót og borga skaðabætur og endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið sitt.

Síðan segir í áliti nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Hafandi í huga að aðildarríkið hefur sem aðili að valkvæðu bókuninni viðurkennt valdsvið nefndarinnar til að ákveða hvort brot á samningnum hafi átt sér stað eða ekki og að aðildarríkið hafi tekið að sér samkvæmt 2. gr. samningsins að tryggja öllum einstaklingum á yfirráðasvæði innan lögsögu þess þau réttindi sem viðurkennd eru í samningnum og veita raunhæfa og aðfararhæfa úrbót ef brotið hefur verið staðfest, þá óskar nefndin eftir upplýsingum frá aðildarríkinu innan 180 daga um ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að bregðast jákvætt við skoðunum nefndarinnar.“

Nú vil ég taka fram virðulegi forseti að þessari þingsályktunartillögu var dreift hér á Alþingi fyrir 98 dögum. Núna eru eftir 44 dagar af þeim fresti sem íslenskum stjórnvöldum var gefinn til að bregðast við áliti mannréttindanefndarinnar. Þeim var gefinn þessi frestur til að gera ráðstafanir, að bregðast jákvætt við skoðunum nefndarinnar, hætta mannréttindabrotum og gera þær breytingar — eða alla vega að gera grein fyrir því með hvaða hætti ætti að koma hér á reglum varðandi fiskveiðar þannig að mannréttindum væri fylgt. Að fylgt væri ákvæðum um jafnræði, um sanngirni þannig að ekki væri brotið gegn ákvæðum 26. gr. mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Í grein sem Þorgeir Örlygsson skrifaði og nefndist „Hver á kvótann?“, segir hann m.a. um þetta álitaefni, með leyfi forseta:

Þegar svo er komið málum sem hér hefur verið rakið er eðlilegt að menn spyrji sig þeirrar spurningar hvort það fái staðist að afhenda tiltölulega fáum einstaklingum jafn verðmæt réttindi yfir sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Því er til að svara að í lagalegum skilningi stenst þetta kerfi í aðalatriðum. Hvort það stenst hins vegar siðferðilega og er að öllu leyti réttlátt er fyrst og fremst háð siðferðilegu og pólitísku mati, ekki lögfræðilegu.

Það má lesa út úr því sem hinn virti fræðimaður Þorgeir Örlygsson segir þarna að hann telur að á það skorti að þarna sé kerfi sem standist siðferðilega og sé réttlátt. En það er að sjálfsögðu háð pólitísku mati og þess vegna er þessi þingsályktunartillaga lögð fyrir Alþingi Íslendinga. Við, hv. alþingismenn, leggjum siðferðilegt og pólitískt mat á hið óréttláta kerfi, á þau mannréttindabrot sem verið er að fremja á hverjum einasta degi og tökum þá ákvörðun að gera breytingar hvað þetta varðar.

Það er athyglisvert að ákvæðin um aðildina að mannréttindanefndinni og þegar fyrir lá sú niðurstaða mannréttindanefndarinnar sem hér um ræðir og ég hef vísað til, þá brást hæstv. sjávarútvegsráðherra við með þeim hætti að segja að þetta álit væri ekki bindandi að lögum. Hvað hafði hann fyrir sér í því?

Ekki hafði hann niðurstöðu mannréttindanefndarinnar fyrir sér í því, því að í áliti mannréttindanefndarinnar sem ég vísaði til áðan er bent sérstaklega á að aðildarríkið Ísland hafi að öllu leyti viðurkennt þann samning og lögsögu sem um er að ræða auk þess sem aðildarríkið Ísland hafi tekið til varnar fyrir nefndinni. Um þetta atriði segi hinn virti lögfræðilegi fræðimaður og fyrrverandi forseti Hæstaréttar, Magnús Thoroddsen, með leyfi forseta:

„Heyrst hafa þær raddir að álit mannréttindanefndarinnar sé ekki bindandi fyrir íslenska ríkið. Því er ég ósammála af ástæðum þeim sem hér greinir ...“

Hann segir og að íslenska ríkið sé aðili að alþjóðasamningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og hafi einnig fullgilt valfrjálsa bókun við samninginn. Í öðru lagi bendir Magnús Thoroddsen á að það sé viðurkennd regla í lögfræði að túlka beri samninga með hliðsjón af tilgangi þeirra.

Í þriðja lagi segir hann að alþjóðasamningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi hafi ekki lagagildi hér á landi en það hefði mannréttindasáttmáli Evrópu heldur ekki haft þó að farið hafi verið eftir honum í dómaframkvæmd engu að síður.

Að lokum bendir Magnús Thoroddsen á að í þessu sambandi sé rétt að vekja athygli á því sem meiri hluti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna hefur sjálfur um þetta að segja og sem hann vísaði til hér áðan.

Í mjög góðri og vel gerðri úttekt sem laganeminn Aðalheiður Ámundadóttir við Háskólann á Akureyri gerði, fjallar hún lögfræðilega um gildi álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og bendir á mjög gild rök um það hvert gildi álitsins sé að þjóðarrétti. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að samningurinn sé óumdeilanlega bindandi fyrir íslenska ríkið að ...

Ég sé ekki ástæðu til þess á þessum stutta tíma sem ég á eftir í ræðustóli að fara að rekja þetta lögfræðilega álit. Ég vil hins vegar vísa til þess sem sérfræðingur ríkisins í þessum málum, Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, hefur sagt eftirfarandi varðandi þetta álitaefni og birtist m.a. í Fréttablaðinu 12. janúar 2008, með leyfi forseta:

„Ég lít alls ekki svo á að stjórnvöld geti hunsað álitið þó að það hefði engar lagalegar afleiðingar.“

Hvað er lagaprófessorinn að segja með þessu? Hún segir: Það kemur enginn og tekur í lurginn á okkur og það er ekkert erlent yfirvald sem sektar okkur eða gerir eitthvað þess háttar. Hitt er annað mál að ég lít þannig á að við verðum að fara eftir þessu áliti.

Þannig hef ég rakið hér, virðulegi forseti, að okkar virtustu lögfræðingar hafa hver eftir annan komið fram og bent á það að hvað sem öðru líði þá sé hér um bindandi álit að ræða að þjóðarrétti þó að við yrðum ekki fyrir neinum viðurlögum öðrum en þeim að sjálfsögðu að við mundum bíða verulegan álitshnekki sem þjóð. Við mundum setja okkur í hóp örfárra þjóða sem eru þekktar fyrir að brjóta mannréttindi ef við færum ekki að því áliti sem hér er um að ræða.

Virðulegi forseti. Ég benti á að nú væru 44 dagar eftir fyrir stjórnvöld til að bregðast við því sem hér kemur fram í áliti mannréttindanefndar að koma með álit um það með hvaða hætti þau ætla að láta af mannréttindabrotum. Við hér á hv. Alþingi höfum beðið í 98 daga eftir að hægt sé að hefja umræður um þessa þingsályktunartillögu sem fjallar um það að við, flutningsmenn tillögunnar, gerum kröfu til þess að íslensk stjórnvöld framfylgi mannréttindum eins og þau hafa verið túlkuð og skilgreind af mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna.

Við flutningsmenn tillögunnar erum sammála um að fiskveiðistjórnarkerfið sé ósanngjarnt. Það er í samræmi við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þetta er ósanngjarnt kerfi. Það er brot á 26. gr. ákvæðanna sem við höfum undirgengist. Það er brot á jafnræðisreglu þegnanna.

Hvernig eigum við að bregðast við? Ég tel að hér sé svo stórt og svo afdrifaríkt mál að ekki sé hægt að bregðast við með öðrum hætti en þeim að taka undir þá kröfu sem við frjálslynd m.a. höfum ítrekað sett fram, að gjafakvótakerfið verði afnumið. Við höfum gert þá kröfu að komið verði á allt öðrum viðmiðunum varðandi stjórn fiskveiða þannig að atvinnufrelsis borgaranna sé gætt, að fullnægt sé ákvæðum stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og að gætt sé jafnræðisreglu þannig að einn þurfi ekki að kaupa það sem annar fær gefins.

Ég ætla virðulegi forseti leyfa mér að vísa í lokin til þess sem segir í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar en þar segir:

„Tryggja skal stöðugleika í sjávarútvegi. Gerð verður sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða og áhrifum þess á þróun byggða.“

Hver eru áhrifin? Það liggur fyrir. Byggðirnar eru að komast í þrot. En áfram skal haldið mannréttindabrotunum og við hv. þingmenn hljótum að gera kröfu til þess að ríkisstjórnin svari okkur nú þegar hvernig hún ætlar að bregðast við og koma í veg fyrir (Forseti hringir.) og hætta að brjóta mannréttindi.