135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[14:51]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu um að við Íslendingar virðum álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Ég er einn þeirra sem hafa haldið því fram síðustu 24 árin eða frá 1984 þegar við byrjuðum með hið svokallaða kvótakerfi — hið svokallaða gjafakvótakerfi, þar sem fiskurinn í sjónum var afhentur fáum útvöldum sem síðan fengu þann rétt að versla með óveiddan fisk, leigja hann, selja hann og veðsetja hann, reyndar eftir 1991, þegar frjálsa framsalið var illu heilli sett á.

Verið var að brjóta atvinnufrelsi á mönnum og jafnræðisreglu og aldrei hefur verið hægt að sætta sig við það. Ég hef því talað gegn kvótakerfinu alla tíð. Því til viðbótar hefur kvótakerfið ekki skilað neinum árangri, ekki náð að byggja upp fiskstofnana og ekki náð tilsettum árangri á öðrum sviðum. Í upphafi var talað um að það ætti í fyrsta lagi að byggja upp fiskstofnana og í öðru lagi að auka hagræðingu. Sjávarútvegur skuldar í dag hátt í 400 milljarða og veiðar í flestum fiskstofnum, samkvæmt áliti Hafrannsóknastofnunar, hafa verið skornar niður — ef ég man rétt er aðeins verið að veiða úr tveimur fiskstofnum yfir meðaltali í tveimur kvótabundnum tegundum. Aðrir stofnar eru allir í sögulegu lágmarki og má þar nefna rækju, loðnu og þorsk — það er reyndar sérstakt að Hafrannsóknastofnun hefur alltaf vanmetið þorskstofninn. Þeir gerðu það um leið og kvótakerfið var sett á og notuðu það kannski til þess að keyra það niður, að þorskstofninn væri í hættu og þess vegna væru forsendur til þess að setja þetta gjafakvótakerfi á.

Auðvitað var þessum auðlindum úthlutað ókeypis sem er náttúrlega sérkapítuli út af fyrir sig, að afhenda auðlindina ókeypis. Með kvótakerfinu voru búnir til leiguliðar og þarf kannski ekki að fara út í það hér einu sinni enn að þetta hefur haft áhrif á sjávarbyggðir hringinn í kringum landið og afkomu fólks. Er raunverulega skammarlegt af Alþingi að hafa ekki í öll þessi ár hlustað á rök þeirra manna og kvenna sem hafa varað við þessu kerfi, hvaða afleiðingar það hefur og hvaða ógæfu það hefur leitt yfir landsmenn. Örfáir útvaldir hafa orðið auðkýfingar á íslenskum mælikvarða en aðrir mátt éta það sem úti frýs. Þetta er raunverulega það sem fiskveiðistjórnarkerfið sem við höfum búið við hefur leitt af sér.

Það er sorglegt til þess að vita að menn sem kenna sig við jafnaðarmennsku og bjóða sig fram fyrir jafnaðarmenn skuli láta sér detta í hug að hafa þetta kerfi óbreytt áfram, þrátt fyrir álit mannréttindanefndarinnar. Eftir 24 ár höfum við fengið rauða spjaldið frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sem staðfestir það sem ég og mínir líkar höfum haldið fram, að kerfið standist ekki mannréttindi, standist ekki jafnræði og stangist á við atvinnufrelsi manna.

Við fengum 6 mánaða frest, íslenska þjóðin, til að svara áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, hvað við ætluðum að gera til þess að vinda ofan af þessu og leiðrétta þann misgjörning sem verið hefur í gangi þessi 24 ár. Eftir 44 daga eigum við að vera — ef við nýtum okkur þennan frest að fullu, en sjávarútvegsnefnd Alþingis og Alþingi sjálft hefur ekkert heyrt af því hvað er í gangi hjá hv. sjávarútvegsráðherra. Við vitum ekkert hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í þessum málum. Ætlar hún að virða þetta, ætlar hún að hunsa þetta eða hvað? Það er mjög sárt fyrir fólk af landsbyggðinni, sem hefur verið fórnarlömb í þessu kerfi, að fá ekkert að vita um hvað er í gangi. Ég skora því á þá sem ráða ferðinni að upplýsa Alþingi og íslensku þjóðina um hvað þeir ætla að gera og auðvitað á Alþingi að koma að því að útbúa ný lög, nýjar reglur. Við eigum að kynna mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna reglur til þess að vinna eftir í framtíðinni þar sem við vindum ofan af þessu óréttláta kerfi og virðum mannréttindi Íslendinga sem brotið hefur verið á í 24 ár.

Víða í heiminum nota menn aflamarkskerfi eins og við höfum hér á Íslandi en það er ekki jafnlokað. Ekki er búið að eyrnamerkja hvern titt, hvern fisk, hvert kíló eins og við gerum. Þar ákveða menn að þeir ætli að veiða 100 þúsund tonn, eða hvaða tölu sem við nefnum, og þeir skipta því á milli þeirra sem eiga skip. Það eru aflamarkskerfi. En þessum aflamarkskerfum fylgja margir gallar, og sérstaklega í blönduðum tegundum sem koma í veiðarfæri eða á veiðarfæri, m.a. brottkast og annað þegar menn eru orðnir kvótalitlir í ákveðnum tegundum. Að hluta til hefur ekki náðst að byggja upp fiskstofnana beinlínis út af þessu kvótakerfi á allar tegundir. Það hefur beinlínis leitt það af sér að við höfum veitt miklu meira af fiski en við höfum á skýrslu. Vigtarnótur eru ekkert heilagar og eru ekki alltaf réttar. Það eru tegundatilfærslur, það eru ýmiss konar hagræðingar í gangi varðandi ísprufur til að drýgja kvóta og í þeim dúr sem kannski er ekki rétt að fara ofan í í þessum ræðutíma en verður gert síðar. Núverandi kerfi kallar á ýmiss konar svindl og svínarí og hefur gert það frá því að það var tekið upp.

Það hvort við virðum álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna hlýtur að hafa áhrif á umsókn okkar og framboð til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ég vitna í Guðmund Alfreðsson þjóðréttarlögmann sem benti okkur á það í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að við yrðum nánast að fara eftir tilmælum mannréttindanefndar og leitast við að uppfylla þau skilyrði sem við þurfum til þess að mannréttindanefndin geti sætt sig við tillögur okkar. Það er þannig að við töpum öllu áliti út á við ef við virðum ekki álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Samfylkingin talaði fyrir kosningar á þann veg að hún vildi gera breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og margir í Samfylkingunni hafa talað um að þetta væri handónýtt kerfi. Fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. og nú ráðherra, Össur Skarphéðinsson, talaði þannig að þetta væri handónýtt kerfi sem ekki væri hægt að nota. En Samfylkingin talar tveimur tungum. Annað var sagt fyrir kosningar en það sem var sagt eftir kosningar og ekki nóg með það, nú tala margir í Samfylkingunni um að ekki sé hægt að virða álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Hv. þm. Ellert B. Schram var síðast á Útvarpi Sögu nú í hádeginu og talaði þar um að ekki væri hægt að gera róttækar breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi.