135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[15:01]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Hér er lögð fram þingsályktunartillaga um að Alþingi hlíti niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 24. október 2007 sem fjallar um það að það kerfi sem við höfum komið okkur upp í sambandi við fiskveiðistjórnarmálin brjóti í bága við mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég verð að segja eins og er að ég geri algerlega ráð fyrir því að íslenska ríkisstjórnin fari eftir tilmælum mannréttindanefndarinnar.

Eitt af því sem einkennir lýðræðisríki, og þau ríki sem hvað stoltust eru af velferðarkerfi og réttindum þegnanna, er að þau taka þátt í því og skuldbinda sig til að fara eftir alþjóðlegum samningum um mannréttindi. Það er bara eitt af grundvallaratriðunum. Þegar verið er að gefa þjóðum stjörnur, ef svo má að orði komast, eða þegar talað er um að eitt þjóðfélag sé betra en annað telja menn upp ýmsa kosti og galla og menn telja jákvætt að mannréttindi séu virt og að ríkisstjórnir landa fari eftir því sem þær hafa skrifað undir í sambandi við mannréttindi og velferð þegnanna og meta stöðu ýmiss konar mála sem veita lífsgæði og öryggi.

Við sáum í beinni útsendingu þegar Saddam Hussein var tekinn af lífi. Hann var dæmdur til dauða fyrir mannréttindabrot og árásir á þegna og annað. Í ýmsum ríkjum þótti þetta sjálfsögð aftaka en ég held að flestum Íslendingum hafi þótt hún afar ljót og ömurlegt að þurfa að horfa upp á þetta í fjölmiðlunum. Þarna var talið að verið væri að uppfylla réttlætið, hann hefði m.a. gerst sekur um mannréttindabrot og ráðist á þjóðarbrot og hópa, en við erum engu að síður algerlega andvíg dauðarefsingum á Íslandi. Ég ætla svo sem ekki að segja að brotið gagnvart sjómönnunum sem sóttu sinn rétt til Sameinuðu þjóðanna sé eins ömurlegt og var að gerast í Írak. En ég legg áherslu á að við hljótum, og mér finnst eiginlega hálfskrýtið að þingsályktunartillaga af þessu tagi komi fram, vegna þess að ég reikna algerlega með því að ríkisstjórn þessa lands muni taka þennan úrskurð mannréttindanefndarinnar til skoðunar. (JM: Hvenær?) Geri það á tilskildum tíma. Ég geri fastlega ráð fyrir því að mikil vinna hafi átt sér stað í sjávarútvegsráðuneytinu og menn reyni að finna út hvernig hægt er að svara þessu áliti á viðeigandi hátt. Ég býst ekki við neinu öðru.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að samfélag eins og okkar sem er þjóðfélag í fremstu röð, ríki í fremstu röð þar sem meðalaldur er hæstur í heiminum og heilbrigði og velferð eru í fyrirrúmi — ein af ástæðunum fyrir því að við búum við þetta góða kerfi er einmitt að mannréttindi eru virt og tillitssemi við fólk og við hópa. Ég reikna því ekki með neinu öðru en því að mjög gaumgæfilega verði hlustað á þennan úrskurð.