135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[15:11]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki hægt að bera saman sölu á Búnaðarbankanum, þó að einhverjum kunni að hafa fundist hún vera döpur eða léleg og verðið ekki sanngjarnt — en það var þó sala. Búnaðarbankinn var seldur fyrir einhverja 12–13 milljarða. En það er verið að tala um gjöf á aðalauðlind þjóðarinnar, þ.e. öllum fiski í sjónum. Endurnýjanleg auðlind var afhent fáum útvöldum og miðað við síðasta verð sem vitað er um á kvóta má ætla að útgefnar veiðiheimildir á Íslandsmiðum séu um þúsund milljarða virði. Það er það sem hv. þm. Karl V. Matthíasson verður að átta sig á. Það er ekki það sama að selja banka ódýrt fyrir 12–14 milljarða og að afhenda fáum útvöldum auðæfin. Það er ekki eins og það bitni ekki á öðrum landsmönnum, björgin er frá þeim tekin. Möguleikinn til að bjarga sér er tekinn af fólki sem hefur byggt og á heima í sjávarbyggðum hringinn í kringum landið. Húsnæðisverð hrynur á þessum stöðum hringinn í kringum landið og það er hægt að fá fínustu einbýlishús víða úti á landi fyrir 2–3 millj. kr. Það er skammarlegt að menn skuli leggja þetta tvennt að jöfnu, sölu á banka og kvótakerfið. Það er ekki síst furðuleg afstaða hjá manni sem er prestur og ætti að vera að þjóna fólkinu, og frumvarp ætti auðvitað að koma til sjávarútvegsnefndar og Alþingis.