135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:03]
Hlusta

Flm. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að koma með þá ábendingu sem hún byrjaði á í ræðu sinni. Hún spurði hvað væri átt við, hvernig eigi að bregðast við og talaði síðan um að niðurstaðan væri nokkuð óljós. En það er ekki um það að ræða. Þetta er mjög skýrt og einfalt vegna þess að það sem málið snýst um í hnotskurn er það sem kemur fram í grein 10.4 í áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, lokasetningu þar sem segir, með leyfi forseta:

„... forréttindin í mynd varanlegs eignarréttar, sem veitt voru upphaflegum handhöfum kvótans til óhagræðis fyrir höfundana, [eru] ekki byggð á sanngjörnum forsendum.“

Þingsályktunartillagan tekur því til þess að þetta ósanngjarna kerfi sem þarna er vísað til verði afnumið og það sem sagt komi þá annað kerfi sem fullnægir ákvæðum um mannréttindi þannig að hér er ekki að neinu leyti óljós niðurstaða. Þetta er einfalt atriði.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spyr: „Hvað vilja menn þá gera í staðinn?“ Það er einu sinni þannig að við flutningsmenn vorum ekki að setja fram aðra valkosti. Við vorum einmitt að setja fram að það kæmi skýrt fram að það væri hægt að afgreiða málið fljótt á Alþingi, að það væri vilji löggjafans að farið sé að mannréttindum. Það er þungamiðjan í málinu. En ég get svarað fyrir okkur frjálslynda. Við viljum að þeir sem vilja veiða geti gert það á jafnréttisgrundvelli. Það er inntak fiskveiðistefnu Frjálslynda flokksins að þeir sem vilja veiða geti gert það á jafnréttisgrundvelli. Við höfum lagt fram ítarlega stefnu í þessu máli. En þetta er undirstaðan og forsendan þannig að mannréttindi (Forseti hringir.) séu virt og jafnrétti og atvinnufrelsi.