135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:08]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að við virðum mannréttindi. Við höfum ákveðið að verða aðilar að samningnum um þessa nefnd þannig að við þurfum að bregðast við því þegar hún kemur með svona niðurstöðu þó að mér sýnist niðurstaðan vera óljós að því leyti að ég átta mig ekki á því hvaða breytingar við getum gert til þess að það nægi til að nefndin verði sátt við hið nýja kerfi. Það væri mjög óheppilegt ef við mundum gera breytingar og síðan væri aftur kært til sömu nefndar og hún kæmi aftur með þá niðurstöðu að nýja kerfið stæðist ekki. Það væri alveg svakalega óheppilegt þannig að við þurfum helst að tryggja að það kerfi sem hér verður sett upp, hvernig sem það lítur út, standist skoðun nefndarinnar. (Gripið fram í: Fá alvöru lögfræðing í málið.)

Ég tel mjög ólíklegt, virðulegi forseti, að full samstaða myndist um þetta mál. Ég tel þó að málið sé þess eðlis og sé þannig vaxið að stjórnarflokkarnir eigi að fá aðra flokka (Forseti hringir.) að lausninni og freista þess að ná eins mikilli samstöðu og hægt er þó ég geri mér grein fyrir því að hún verði aldrei fullkomin.