135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:15]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er til svokölluð stjórnarskrárnefnd og í henni eru fulltrúar allra flokka. En hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde hefur sagt að hann ætli ekki að láta þá nefnd gera nokkurn skapaðan hlut. Það eigi að gera breytingar á stjórnarskránni með áhlaupi rétt fyrir næstu kosningar. Sú nefnd vinnur því ekki neitt. Hún heldur enga fundi eða gerir neitt. Ég tel það algjörlega óboðlegt af því að við erum að tala um mjög stór mál, neitunarvald forseta, náttúruauðlindina, hvort ráðherrar eigi að sitja á þingi eða ekki, dómstólakaflann o.s.frv. Þetta eru stór mál sem ekki er hægt að vinna með áhlaupi, korteri fyrir kosningar, því miður, virðulegu forseti.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson hefur þá fallegu hugsjón að vilja almennt ná góðri og víðtækri samstöðu um mál. Það er virðingarvert að hafa þá stefnu og skoðun. Hér er um stórt mál að ræða og það hefur hv. þingmaður og fleiri sagt hér í þessum ræðustól, þetta er stórt mál og það er pólitískt mjög viðkvæmt.

Það er ekki verið að vinna að neinu samráði í dag. Það er ekki einu sinni það mikið samráð að sjálfur hv. þm. Karl V. Matthíasson, talsmaður Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum, hann veit ekki hvar málið er statt. Það er nú samráðið. Það er ekki einu sinni samráð á milli stjórnarflokkanna, hvað þá við aðra flokka.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er það ekki skrýtið að talsmaður Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum viti ekki hvar þetta mál er statt heldur giskar á að líklega sé verið að vinna það uppi í ráðuneyti? Er það ekki skrýtið samráð? Er það ekki steindautt samráð? Er það nokkurt samráð?

Hefði hv. þingmaður ekki talið eðlilegt að allir stjórnmálaflokkarnir kæmu að þessu máli og reyndu að ná samstöðu eins langt og hægt er? Ég geri mér grein fyrir því að við mundum aldrei (Forseti hringir.) ná fullri samstöðu en hefði það ekki verið eðlilegt í þessu máli? Væntanlega kemur það lagafrumvarp í haust eins og hv. þingmaður segir, að þá verði búið að reyna að ná (Forseti hringir.) einhverri sátt um það.