135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:42]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hnaut um eitt í ræðu hv. þm. Ellerts B. Schrams. Hann sagði að við ættum ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu máli, unnið væri að því í ráðuneytinu, embættismenn væru að vinna að því að búa til svarið sem yrði þá sent út í kringum 11. júní. Ég vil af því tilefni spyrja hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér á hvaða nótum svarið verður miðað við hvernig hann orðaði það áðan. Er ekki ólíklegt að svarið verði eins konar embættismannasvar? Er ekki ólíklegt að svarið verði: Ísland mun gera breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum á næsta þingi, í haust, þannig að þau uppfylli niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna? Er ekki ólíklegt að svarið verði á þann veg? Verður svarið ekki frekar á aðeins pólitískari nótum, hvernig menn ætla að nálgast viðfangsefnið, hvernig menn ætla að taka tillit til niðurstöðunnar? Mér finnst mjög ólíklegt að svarið verði hlutlaust embættismannasvar og engar (SKK: Hvaða viðhorf er þetta til embættismanna?) leiðbeiningar um hvernig eigi að gera þetta, virðulegi forseti. Mér finnst það mjög ólíklegt, ég vil fá eitthvað fram um það frá hv. þingmanni.

Það var smáuppgjafartónn í ræðu hv. þingmanns, sérstaklega varðandi það að þegar tveir flokkar semja þurfi annar að gefa eftir o.s.frv. (Gripið fram í.) Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að það stendur í stjórnarsáttmálanum að tryggja eigi stöðugleika í sjávarútvegi, því hefur Sjálfstæðisflokkurinn komið inn. En þar stendur líka að endurskoða eigi stjórnarskrána og leggja eigi áherslu á það að leiða til lykta ágreining um þjóðareign á náttúruauðlindum og ég er alveg viss um að Samfylkingin hefur náð því inn. Við náðum þessu líka inn á síðasta kjörtímabili, framsóknarmenn. Því miður náðum við þessu ekki í höfn. Því miður vorum við líklega of sein til að berjast fyrir þessu ákvæði, Sjálfstæðisflokknum tókst að lama okkur svolítið í því og reyndar hljóp stjórnarandstaðan öll út og suður að lokum, það verður að viðurkennast.