135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:47]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum sammála um að þetta ákvæði þarf að komast inn í stjórnarskrána og þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Þetta mál snýst um það hvort virða eigi mannréttindi sem eru fólgin í atvinnufrelsinu og jafnræðinu. Það eru kannski megingallarnir á fiskveiðistjórnarkerfinu sem hér hefur verið við lýði. Talað er um að breyta því hvað varðar þessi tvö mikilvægu atriði, atvinnuréttinn og jafnræðið. Ég gef mér það, ef bregðast á við þessu áliti af einhverju viti og raunsæi, að þá hljóti að verða tekið á þessum tveimur atriðum með einum eða öðrum hætti. Meira get ég ekki sagt um það mál.