135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:48]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Með þessari ræðu verður hv. þm. Grétari Mar Jónssyni að ósk sinni að einhver þingmaður Sjálfstæðisflokksins taki þátt í umræðunni en yfir því var mikið skammast áðan að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefði látið til sín taka hér þrátt fyrir að ég væri búinn að vera á mælendaskránni í alllangan tíma til að fjalla um þessa tillögu til þingsályktunar um breytta stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Það er kannski ástæða til að geta þess vegna yfirskriftar þingsályktunartillögunnar að hér er ekki um úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna að ræða heldur álit og á því er töluvert mikill munur.

Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu eru hv. þingmenn Jón Magnússon, Guðjón A. Kristjánsson, Grétar Mar Jónsson, Atli Gíslason, Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson. Þessir hv. þingmenn leggja það til að Alþingi álykti að hlíta beri niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 24. október 2007. Í framhaldinu verði lögum um stjórn fiskveiða breytt í samræmi við álit nefndarinnar eða úrskurð, eins og segir í ályktuninni sjálfri, til að tryggja jafnræði borgaranna, sanngirni og mannréttindi. Þetta verði gert vegna þess álits sem við ræðum hér.

Eins og áður segir kom þetta álit frá mannréttindanefndinni 24. október 2007 og hefur töluvert verið rætt síðan, m.a. í tengslum við þessa þingsályktunartillögu. Það hefur komið mér dálítið á óvart hversu lítil efnisleg umræða hefur farið fram um álitið sjálft og það vekur athygli mína hversu mikið þingmenn gera úr því að 44 dagar séu til stefnu þar til ríkisstjórnin á að svara álitinu. Með öðrum orðum, fresturinn er ekki liðinn og mér finnst ekki ástæða til annars en að menn nýti tímann vel til að fara yfir þetta álit frá mannréttindanefndinni og ástæðulaust að gera það tortryggilegt að menn nýti hann. Fresturinn er ekki útrunninn. Menn geta svo gert athugasemdir þegar hann er útrunninn en hann er það ekki. Það eru 44 dagar til stefnu og það er sá tími sem menn hafa til að bregðast við.

Ég hef alltaf sagt að mér finnst sjálfsagt að ræða þetta álit sem hér er til umfjöllunar. Það hafa menn gert, m.a. menn sem ekki sitja á hinu háa Alþingi. Einn þeirra sem það hefur gert er ágætur lögfræðingur og fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins. Hann skrifaði ágætan leiðara þann 15. janúar sl. en þar segir ritstjórinn, með leyfi forseta:

„Meiri hluti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna hefur lýst þeirri skoðun að takmörkuð eignarréttindi á veiðiheimildum með frjálsu framsali séu andstæð mannréttindum. Sú niðurstaða stangast á við stjórnarskrá Íslands. Mikilvægt er að ræða þetta álit og bregðast við því. Verði álit meiri hlutans túlkað á þann veg að breyta þurfi fiskveiðistjórnun í grundvallaratriðum blasa við alvarlegar efnahagslegar og félagslegar þrengingar.

Ýmsir hafa óttast um hagsmuni sjávarútvegsins ef Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu. Ef taka ætti mark á meiri hluta mannréttindanefndarinnar fæli það í sér að við hefðum undirgengist mun meira framsal á sjálfsákvörðunarrétti en þar er um að tefla. Aðildin að Sameinuðu þjóðunum hefði þannig mun alvarlegri og víðtækari áhrif á sjávarútveginn og sjávarplássin en Evrópusambandsaðild.“

Ég er ekki viss um að ég geti tekið undir það með Þorsteini Pálssyni að aðild Íslands að Evrópusambandinu hefði jákvæðari áhrif á íslenskan sjávarútveg en ef farið yrði að niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Hvort tveggja hefði í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnugreinina. En að öðru leyti tek ég undir með ritstjóra Fréttablaðsins. Verði álit meiri hluta nefndarinnar túlkað á þann veg að breyta þurfi stjórnkerfi fiskveiða í grundvallaratriðum er viðbúið að slíkt mundi hafa í för með sér alvarlegar efnahagslegar og félagslegar þrengingar. Vilji menn túlka niðurstöðu mannréttindanefndarinnar bókstaflega og telja að þær bindi hendur stjórnvalda hljóta þeir hinir sömu að fallast á að niðurstöður hennar hefðu ekki einungis í för með sér breytingar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu heldur einnig á fiskveiðistjórnarkerfum annarra ríkja sem byggja á kvótakerfi en ekki síður stjórnkerfum landbúnaðarins sem byggja að grunni til á sömu undirstöðum. Má þar nefna fiskveiðistjórnarkerfi Nýsjálendinga, Ástrala, Alaskabúa, Evrópusambandsins og fleiri.

Ég leyfi mér, frú forseti, að efast um að þessar þjóðir mundu sætta sig við slíka íhlutun nefndarinnar í innanríkismál sín. Hins vegar er óumdeilt að álit nefndarinnar er ekki bindandi fyrir þjóðríkin og þar af leiðandi ekki heldur fyrir okkur Íslendinga. Því er rétt að taka undir með ritstjóra Fréttablaðsins þegar hann segir að ef taka ætti mark á meiri hluta mannréttindanefndarinnar fæli það í sér að við hefðum undirgengist mun meira framsal á sjálfsákvörðunarrétti okkar. Það höfum við hins vegar ekki gert, Ísland er enn þá fullvalda og sjálfstætt ríki og verður það vonandi áfram. Þó svo að í landinu fyrirfinnist stjórnmálamenn sem telja frekara framsal löggjafarvalds og dómsvalds til annarra ríkja og yfirþjóðlegra stofnana til hagsbóta fyrir Íslendinga þá ráðum við enn okkar eigin málefnum. Alþingi setur lög og reglur sem hér gilda og íslenskir dómstólar dæma samkvæmt þeim. Því hefur ekki verið breytt þrátt fyrir þetta álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar er allt í lagi að ræða álitið og bregðast við því.

Þegar álit meiri hluta nefndarinnar er lesið kemst maður ekki hjá því að sjá að niðurstaða hennar byggir á alvarlegum misskilningi á grundvelli íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins. Ég held að það sóknarfæri sem íslensk stjórnvöld fá nú með því að svara þessu áliti sé að leiðrétta þann misskilning sem þar kemur fram. En það skiptir miklu máli að það sé gert á yfirvegaðan og ígrundaðan hátt vegna þess að hér eru verulegir hagsmunir í húfi. Íslensk stjórnvöld mega ekki fara á taugum þó svo að frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna komi álit sem mælir fyrir um það að ákvæði fiskveiðistjórnarlaganna brjóti í bága við samninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Það má vel vera að ég og fleiri sem tilheyrum stjórnarmeirihlutanum séum annarrar skoðunar en þeir ágætu menn sem sátu í þessari nefnd og komust að þessari niðurstöðu en sannleikurinn er hins vegar sá að sem betur fer er þetta álit ekki bindandi. Það er Alþingi Íslendinga sem fer enn þá með löggjafarvaldið á Íslandi.

Íslenskur sjávarútvegur hefur á síðustu mánuðum orðið, og það vitum við öll og ég held að við deilum ekkert um það, fyrir alvarlegum áföllum og einkum vegna skerðingar þorskveiðiheimildanna. Að mínu mati má þessi atvinnugrein ekki við frekari áföllum. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn fari rólega með hagsmuni sjávarútvegsins í huga. En við verðum líka að hugsa út í hvert hlutverk Alþingis er. Þegar ég tala svona gegn þessu áliti vegna þess að ég tel að það sé rangt og byggist á röngum forsendum, þá má vel vera að einhverjir hv. þingmenn segi að ég sé varðhundur útgerðarinnar, varðhundur kvótaeigenda og kvótakerfisins. (JM: Sem þú ert.) Sem ég er, ég skal gangast við því að ég styð núverandi kvótakerfi og ég styð íslenskan sjávarútveg en ég tek í þessari ræðu líka til varna fyrir Alþingi og alþingismenn. Mér finnst það alvarlegt mál að hingað komi þingmenn og beri fram tillögur sem mæla fyrir um það að þingið og við sem löggjafi og Alþingi sjálft eigi að taka við fyrirmælum frá nefndum úti í heimi og afsala okkur valdi sem við höfum aldrei afsalað okkur. Þetta er að mínu mati alvarlegur hlutur sem við ættum að ræða og það þarf að skoða þessa tillögu í ljósi þess. Sem betur fer er það svo að við erum enn þá sjálfstætt ríki. Við höfum ekki framselt neinn rétt til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, ekki frekar en önnur ríki, hv. þingmaður, sem hafa undirritað þann ágæta prótókoll. Það er ágætt að taka þessa umræðu (Forseti hringir.) en ljóðurinn á ráði þeirra sem flytja tillöguna er sá að þeir eru ekki með neinar lausnir á vandanum eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir benti á.