135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:01]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Þetta var merkileg ræða. Það er eins og hv. þingmaður haldi að ég sé fæddur með gullskeið í munninum og viti ekkert út á hvað lífið gengur, hafi aldrei verið á sjó og ég veit ekki hvað og hvað. Ég get upplýst hv. þingmann um það að ég hef verið á sjó og róið frá Snæfellsnesi, öll mín móðurætt er þaðan og afi minn heitinn var hafnarverkamaður. Í hina ættina er ég ættaður frá Vestfjörðum, úr Sléttuhreppnum á Hornströndum, og afi minn og amma sárfátækt fólk sem stundaði sjávarútveg og verkavinnu. Að koma hér upp og halda því fram að maður viti ekkert um hvað lífið snýst er náttúrlega ekkert innlegg í þessa umræðu, og þó svo að það væri þannig er ekki þar með sagt að ég megi ekki hafa skoðun á málunum. Þetta er bara einfaldlega mín skoðun, hv. þingmaður.

Ég tel að niðurstaða mannréttindanefndarinnar sé röng. Ég tel að það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við brjóti ekki í bága við mannréttindi — þrátt fyrir að einhverjir sérfræðingar úti í heimi komist að þeirri niðurstöðu er ekki þar með sagt að sú niðurstaða sé sú eina rétta, alls ekki. En ég frábið mér svona málflutning eins og hér hefur komið fram, að ég hafi ekki hundsvit á því hvernig lífi alþýðufólk hefur lifað. Bíddu, ég er kominn af alþýðufólki í báðar ættir og það er ágætt að hv. þingmaður viti það, mig grunar nefnilega að hann hafi alist upp við meiri efni en sá sem hér stendur.