135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:03]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög alvarlegt þegar menn verja mannréttindabrot og treysta sér hreinlega til þess að segja að við skulum viðhalda mannréttindabrotum, það er mjög alvarlegt. Það er kannski enn alvarlegra af því að viðkomandi þingmaður, Sigurður Kári Kristjánsson, er löglærður og ætti að vita muninn á því hvað er að brjóta lög og hvað ekki.

Það er ótrúlegt að hv. þingmaður skuli gera lítið úr áliti 18 sérfræðinga sem settu fram þetta álit hjá Sameinuðu þjóðunum, með ólíkindum að hann skuli voga sér að draga í efa hæfileika þeirra til þess að meta hvort við séum að brjóta mannréttindi hér á Íslandi.