135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:04]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki að gera lítið úr áliti þeirra sérfræðinga sem mynduðu meiri hluta þeirrar nefndar sem skilaði frá sér þessu áliti. Ég er miklu frekar að taka undir álit þeirra sem voru í minni hlutanum. Það er rangt að ég sé hér að verja mannréttindabrot, ég hef aldrei varið (Gripið fram í.) mannréttindabrot, alls ekki. (GMJ: Þú ert að verja mannréttindabrot.) Ég vil mannréttindi og veg þeirra alveg jafnmikinn og hv. þingmaður.

Það þýðir hins vegar ekki að ég þurfi að vera sammála öllu því sem hv. þingmaður segir, fylgisveinar hans eða þessir ágætu sérfræðingar hjá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Ég er ekki sammála öllu því sem þaðan kemur. Ég hugsa að ef hv. þingmaður mundi skoða sögu umræddrar nefndar væri hann ekki sammála öllum þeim niðurstöðum sem þaðan hafa komið.