135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:07]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður getur verið með hvaða útleggingar sem hann vill í andsvari sínu, ég er einungis að túlka mína eigin skoðun. Hv. þingmaður getur túlkað orð mín eins og hann vill en ég veit að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er fullfær um að túlka sína skoðun á þessu máli.

Hv. þingmaður sagði að ég væri á móti tillögunni. Ég lýsti því hér yfir að mér finnst sjálfsagt að ræða þetta álit efnislega og málið í heild sinni. Ég er hins vegar á móti því að Alþingi sem löggjafarvald hér á Íslandi og alþingismenn séu reiðubúnir til þess að hlíta í einu og öllu, án nákvæmrar skoðunar, áliti frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sem okkur er ekki skylt að þjóðarrétti að fylgja.

Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sé bindandi? (JM: Já.) Ef hv. þingmaður er þeirrar skoðunar telur hann þá ekki að á grundvelli þessa álits mannréttindanefndarinnar þurfi að taka fiskveiðistjórnarkerfi annarra ríkja, eins og t.d. Nýja-Sjálands, Ástralíu, Alaska og Evrópusambandsins — og meira og minna landbúnaðarkerfin í flestum löndum í heiminum — til endurskoðunar? Ég spyr hv. þingmann að þessu, verða menn ekki að draga þá ályktun?