135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:25]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður veit þá eru skiptar skoðanir á kvótakerfinu í Samfylkingunni. Þar eru margir sem hafa miklar efasemdir um það kerfi. Ég var t.d. lengi framan af einn af þeim sem studdu þetta kerfi alveg af lífi og sál. Ég gerði það út frá sjónarmiðum verndarstefnu, þ.e. ég tók mark á þeim upphaflega tilgangi kvótakerfisins, að það væri vel til þess fallið að vernda stofnana og koma í veg fyrir ofveiði.

Síðan horfi ég framan í reynslu sem bendir til þess að kvótakerfið dugi ekkert til þess að vernda stofnana í hafinu. Við verðum bara að horfast í augu við þá staðreynd. Þess vegna hef ég sagt að menn verða að skoða alla þætti þessa kerfis. Ég þekki það sem byggðamálaráðherra hvernig skuggahliðar þess hafa leikið landsbyggðina. En við þetta bætist að ég hef efasemdir um að þetta kerfi eins og það er rekið í dag sé nægilega vel fallið til þess að vernda stofnana í hafinu. Við þurfum ekki annað en að horfa á þróun þorskstofnsins. Hún hefur öll verið á sömu leið. Það er hugsanlegt að einhverjar sveiflur séu í hafinu, vaxandi hiti og annað sem á sinn þátt í þessu.

En það breytir ekki hinu að þegar menn standa andspænis niðurstöðu reynslunnar allar götur frá 1984 með þetta í höndunum sem við höfum í dag þá verða menn auðvitað að skoða þetta kerfi upp á nýtt. Það er ekki bara niðurstaða sem menn komast að út frá dómi mannréttindanefndar heldur er það veruleikinn.

Svo vil ég, af því að Framsóknarflokkurinn er algjörlega fjarstaddur þessa umræðu, taka upp hanskann fyrir hann. Hv. þingmaður gat þess réttilega að það væri fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins sem væri höfundur kvótakerfisins. En batnandi fólki er best að lifa. Framsóknarflokkurinn fer batnandi. Formaður Framsóknarflokksins hefur lýst því yfir að hann vilji gjörbreyta kvótakerfinu og vilji taka þátt í því að skoða það upp á nýtt.