135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:27]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það eru vissulega gleðitíðindi að heyra hér ráðherra úr ríkisstjórninni tala um að það þurfi að breyta þessu fiskveiðistjórnarkerfi. Ég fagna því. Ég hef reyndar vitnað í orð hans hér frá 2003 þegar hann var formaður Samfylkingarinnar. Þá talaði hann fyrir því og minnti á að þetta væri óréttlátasta fiskveiðistjórnarkerfi sem til væri og annað í þeim dúr.

Ég get ekki annað en fagnað því að enn þá er einhver dugur í fólki í Samfylkingunni sem vill gera breytingar á kerfinu og er ekki búið að missa móðinn eins og kannski einhverjir aðrir í flokknum.

Hæstv. forseti. Ég vil bara enn og aftur segja að þetta eru gleðitíðindi og ég vona að þetta skili sér inn í ríkisstjórnina. En það væri samt gaman að heyra álit hæstv. iðnaðarráðherra og byggðamálaráðherra Össurar Skarphéðinssonar, hvort honum finnist ekki tímabært að þingið fái að koma að þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru til þess að uppfylla skilyrði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna þannig að málinu sé ekki haldið inni í sjávarútvegsráðuneytinu eingöngu án þess að aðrir fái að koma að málinu.

Mér finnst það vera skylda ríkisstjórnarinnar að Alþingi fái að koma að þessu, að það og nefndir þess verði ekki hunsuð í þessu máli. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að við fáum að heyra álit hæstv. iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar, hvað hann leggur til í þessum efnum.