135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:29]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef nákvæmlega sömu afstöðu og ég hafði þegar ég var kosinn fyrsti formaður Samfylkingarinnar. Þá hafði ég forgöngu að því að Samfylkingin mótaði sér stefnu varðandi stjórnkerfi fiskveiða. Hún gengur undir nafninu fyrningarstefnan.

Ég er enn þá sömu skoðunar. Ég tel að það væri farsælast að fyrna kvótann og setja hann á markað. Ég veit að margir í þessum sal eru ekki á sömu skoðun. Mér heyrist þó að þeir séu fleiri í stjórnarandstöðunni sem hníga að því. M.a. hefur hv. þm. Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins talað á þá vegu.

Ég sem byggðamálaráðherra veit það mætavel að flutningur á veiðiheimildum af landsbyggðinni hefur leitt til mikilla hörmunga fyrir landsbyggðina. Ég veit það líka að þar er að finna atorkusamt fólk og sterka frumkvöðla sem mundu, ef þeir ættu kost á því að keppa á jafnréttisgrundvelli um veiðiheimildir m.a. vegna landfræðilegrar legu nær miðunum heldur en suðvesturhornið, sennilega standa sig betur í því en þeir sem núna fara með kvótann.

Ég er þeirrar skoðunar að það væri farsælast að taka upp einhvers konar fyrningarleið. Og ég er líka þeirrar skoðunar að það væri farsælast að allur afli sem er veiddur við Íslandsstrendur færi á markað. Þetta er nú mín skoðun.

Hv. þingmaður veit að það eru ekki allir sömu skoðunar og ég innan Samfylkingarinnar. Þetta er ekki það sem ríkisstjórnin ákvað að gera þegar hún var mynduð í upphafi. En þetta er mín skoðun, þetta hefur verið mín skoðun og þetta verður mín skoðun.