135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:34]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að mjög ólíkar skoðanir eru innan þingsins eftir stjórnmálaflokkum um hvernig skuli nálgast umræðu um stjórn fiskveiða og endurbætur og breytingar á henni. Það er kannski þeim mun alvarlegra að fulltrúar annars stjórnarflokksins, þeim sem virðist ráða för — það er Sjálfstæðisflokkurinn sem virðist ráða för í þessari ríkisstjórn sem fyrri ríkisstjórnum og Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt aðild að og stýrt ríkisstjórn í samfellt um 17 ár. Og það má horfa á þann feril ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins hvort heldur í efnahagsmálum eða í stöðu fiskstofnanna að þeir virðist aldrei vera í verri stöðu en nú. Við ræddum fyrr í dag stöðu efnahagsmála og við höfum aldrei á þessu tímabili verið með hærri verðbólgu — vextir eru hærri og ótryggt ástand er í efnahagsmálum — heldur en undir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins eftir 17 ára setu. Og nú biður Sjálfstæðisflokkurinn um sér sé sýnd biðlund, sýnd þolinmæði meðan að málin eru að fara enn verr. Hið sama er upp á teningnum í sjávarútvegsmálunum. Fiskveiðistjórnarkerfið sem sett var á var einmitt til þess að vernda fiskstofnana. Hefur það gengið eftir? Nei. Er það til að stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra? Nei. Er það til að treysta atvinnu? Nei. Því fer fjarri. Er það til að efla byggð í landinu? Nei. Fiskveiðistjórnarkerfinu hefur einmitt verið beitt til þess að rústa byggð á stórum landsvæðum.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum þess vegna lagt fram frumvarp til laga á þingi þar sem við leggjum til að fiskveiðistjórnarkerfið verði tekið til heildarendurskoðunar, að menn viðurkenni í raun að þau markmið sem sett voru hafi ekki náðst og þess vegna verði að endurskoða kerfið.

Við leggjum til að að skipuð verði nefnd með aðild allra þingflokka og hagsmunasamtaka sem koma að þessu. Og markmið nýrra laga um stjórn fiskveiða skal vera að nytjastofnar á Íslandsmiðum verði óvefengjanlega sameign íslensku þjóðarinnar og að þau tryggi verndun, sjálfbærni og hagkvæma nýtingu sjávarauðlinda og lífríkis sjávar sem og trausta atvinnu og byggð í landinu öllu.

Mikilvægustu atriðin við mótun nýrrar stefnu í sjávarútvegi eru einmitt þau sem ég taldi hér upp, ekki síst að sjávarútvegurinn lagi sig að markmiðum sjálfbærrar þróunar og vinni markvisst að því að bæta umgengni um náttúruna og lífríkið, þ.e. einstaka nytjastofna, vistkerfi hafsbotnsins og hafsbotninn sjálfan og sjávarútvegurinn treysti í raun byggð og efli atvinnu í landinu öllu ásamt því að stuðla að aukinni fullvinnslu framleiðslunnar og þar með aukinni verðmætasköpun og hámarksafrakstri auðlinda innan lands. Ný tækifæri í sjávarútvegi felast ekki hvað síst í aukinni verðmætasköpun. Sjávarútvegurinn er í raun þekkingariðnaður sem skiptir miklu máli að sé búið að með þeim hætti að hægt sé að þróa hann til framtíðar. Það þarf að leggja miklu meiri áherslu á aukna fiskvinnslu innan lands.

Við horfum síðan ítrekað á ranglætið eins og að héðan skuli fluttur út óunninn fiskur í gámum í auknum mæli af Íslandsmiðum án þess að íslenskar fiskvinnslur hafi möguleika á að bjóða í hann til innlendrar vinnslu. Við horfum á það óréttlæti. Maður horfir líka á dóm og álit mannréttindanefndarinnar sem segir að úthlutun fiskveiðiheimildanna standist ekki jafnræðisreglu mannréttindanefndarinnar. Svo er það framsalið, framleigan á kvótanum. Þegar einn aðili fékk úthlutað nýtingarrétti á ákveðinni auðlind, seldi hana eða leigði frá sér og nýtti hana ekki sjálfur þá er það mat mannréttindanefndarinnar að það standist ekki grunnreglur hennar.

Mér finnst það verulegt áhyggjuefni (Forseti hringir.) þegar forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins segja að það þurfi ekki að fara að áliti mannréttindanefndarinnar. Mér finnst það mjög mikið áhyggjuefni, herra forseti, og spyr: Er Samfylkingin virkilega sammála því að þannig sé þessu farið? (Forseti hringir.) Við höfum hér hæstv. ráðherra. Hann segir hér nokkur falleg orð. En við skulum heyra hvað hann segir, herra forseti.