135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:41]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ágætisræða hjá hæstv. ráðherra, (Gripið fram í: ... mjög góð.) mjög góð. Það eina sem upplýsist er hversu gleyminn hann er því VG, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, er sá flokkur sem hefur lagt fram mjög mótaða stefnu í sjávarútvegsmálum, (Gripið fram í: Þrjár.) mótaða heildstæða stefnu og lagt hana til grundvallar í sinni málefnavinnu og sinni kosningabaráttu á undanförnum árum. Við erum ekkert að hlaupa frá henni frá degi til dags eins og Samfylkingin gerir.

Í þessu ágæta frumvarpi sem við leggjum hér fram þá leggjum við okkar stefnu inn í það púkk. En við vitum að aðrir flokkar eru okkur ekki sammála. En það er mjög mikilvægt að þjóðin sameinist um stefnuna í sjávarútvegsmálum. Við leggjum okkar stefnu í púkk. Samfylkingarstefnan virðist vera týnd. Hæstv. ráðherra sagði áðan. „Ég var fylgjandi fyrningarleið“ (Gripið fram í: Nei.) og er það enn. En það eru mjög skiptar skoðanir í flokki ráðherrans. Þá opinberast að Samfylkingin er ekki með neina heildstæða stefnu í sjávarútvegsmálum og er það kannski þess vegna sem við heyrum nú hér tvær skoðanir á því hvernig taka skuli á úrskurði mannréttindanefndarinnar? Formaður Samfylkingarinnar segir eitt. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir allt allt annað. Ég spyr hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson hvaða skoðun hann hafi þá á því hvort beri að hlíta áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem við höfum skrifað upp á. Mun hæstv. ráðherra beita sér innan ríkisstjórnarinnar fyrir því að það verði orðið við þessu áliti en ekki látinn vera uppi vafi um það hvort við ætlum að hlíta (Forseti hringir.) alþjóðalögum sem við höfum skrifað upp á. Ég vil fá skýr svör, herra forseti.