135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[17:48]
Hlusta

Flm. (Jón Magnússon) (Fl):

Virðulegi forseti. Þeir hv. þingmenn sem hafa kvatt sér hljóðs við þessa umræðu hafa með einni undantekningu lýst stuðningi við þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir. Sumir með ákveðnum fyrirvörum, sumir með tilkynningu um að það sé kannski til of mikils mælst að ætla að berjast gegn óréttlætinu, en bent hefur verið á að menn hafi þurft að gera það fyrr og haft fullan sigur.

Einn hv. þingmaður, Sigurður Kári Kristjánsson, kom hins vegar upp og gerði grein fyrir því að hann væri algjörlega ósammála niðurstöðu meiri hluta mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og taldi að ekki þyrfti að breyta neinu varðandi fiskveiðistjórnarreglur okkar. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem talað hefur við þessa umræðu og ekki verður hjá því komist að líta þannig á, einkum og sér í lagi ef miðað er við t.d. ákveðin ummæli hæstv. forsætisráðherra, sem ég mun vísa til á eftir, með leyfi virðulegs forseta, þar sem hann talar með sama hætti og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerði áðan. En hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gaf sér það og sagði að það væri enginn ágreiningur um að niðurstaða mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sé ekki bindandi að þjóðarétti. Þetta er rangt. Það er ágreiningur um það. Helstu lögfræðingar þjóðarinnar hafa komið fram og sagt að hún sé bindandi að þjóðarétti en það hefur hins vegar komið fram hjá nokkrum talsmönnum Sjálfstæðisflokksins að svo sé ekki.

Ég vísaði áðan í orð fyrrverandi forseta Hæstaréttar, Magnúsar Thoroddsens. Ég get vísað til þess að í auglýsingu frá 28. ágúst 1979 er vísað til þingsályktunar frá 8. maí 1979 sem send var framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um fullgildingu á alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Við fullgiltum samninginn og vorum eftir það bundin af samningnum að þjóðarétti.

Prófessor Björg Thorarensen við lagadeild Háskóla Íslands sagði í samtali við Morgunblaðið, með leyfi forseta:

„Íslendingar eru aðilar að samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og hafa skuldbundið sig til að virða ákvæði hans. Sá samningur hefur umtalsverð áhrif á Íslandi. Hann hefur verið notaður í dómsmálum og til hans verið vísað, til að mynda þegar íslenskir dómstólar túlka ákvæði stjórnarskrárinnar, enda tekur 65. grein stjórnarskrárinnar mið af 26. grein samningsins, sem var til skoðunar í þessu máli …“

Björg Thorarensen bætir við, með leyfi forseta:

„Þetta er álit og það er sem slíkt ekki þjóðréttarlega skuldbindandi eins og um dóm væri að ræða en á hinn bóginn hefur það mikið vægi því mannréttindanefndin er mikilvæg stofnun innan Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur samþykkt þessa kæruleið um að nefndin fjalli um kærur á hendur ríkinu.“

Af þessum orðum Bjargar Thorarensen má vera ljóst að íslensk stjórnvöld geta ekki komist upp með að láta sem ekkert sé. Ríkisstjórnin verður að taka afstöðu með því hvernig hún ætlar að bregðast við. Ég tel og hef lýst því hér að alþjóðasamningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sé mannréttindasamningur sem Ísland er aðili að sé óumdeilanlega bindandi fyrir íslenska ríkið að þjóðarétti. Í fyrsta lagi, svo ég noti alkunnugt orðalag, ber orðalag hans það með sér. Í öðru lagi kveða þjóðréttarreglur skýrt á um að alþjóðasamningur er bindandi. Í þriðja lagi er í 2. gr. samningsins kveðið á um skyldur ríkjanna til að virða og tryggja borgurum sínum þau réttindi sem viðurkennd eru í samningnum. Í fjórða lagi er samningurinn skuldbindandi fyrir aðildarríkin og aðildarríkin skuldbinda sig til að gera nauðsynlegar ráðstafanir að lögum til að fara eftir honum og tryggja að honum sé framfylgt. Og í fimmta lagi eru ríkin skyldug til að veita raunhæfar úrbætur til þeirra sem hafa orðið fyrir einhverri skerðingu vegna mannréttindabrota.

Um þetta fjallaði lögfræðingurinn Aðalheiður Ámundadóttir með mjög skýrum og glöggum hætti (Gripið fram í: Hvar?) í ritgerð sem hún gerði einmitt varðandi þessa niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þessi atriði … (Gripið fram í.) Já, og ræddi nú fyrir nokkru á málþingi Samfylkingarinnar þar sem m.a. var fjallað um þessi atriði. Þau atriði sem ég nefndi hér varðandi gildi þessa alþjóðasamnings að þjóðarrétti eru að mínu viti óvefengjanleg en hins vegar er alveg hárrétt að við getum komist upp með það að hunsa þetta álit. Það er engin alþjóðalögregla til að framfylgja þessu áliti. Hitt er annað mál að íslenska ríkið gæti orðið bótaskylt gagnvart þeim sem hafa verið órétti beittir. En spurningin fyrir okkur sem þjóð er fyrst og fremst sú: Viljum við vera í fremstu röð þegar um er að ræða mannréttindi eða viljum við það ekki?

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson endurómaði sjónarmið sem hafa komið fram hjá ýmsum í Sjálfstæðisflokknum. Sem betur fer eru þar þó margir sem hafa áttað sig á að gjafakvótakerfið stenst ekki og það verður að víkja frá því.

Hæstv. forsætisráðherra sagði á aðalfundi LÍÚ í október 2006, með leyfi forseta:

„Núverandi kvótakerfi hefur sannað gildi sitt. Það hefur leitt til bæði ábyrgrar og hagkvæmrar nýtingar auðlindarinnar.“

Til „ábyrgrar og hagkvæmrar nýtingar auðlindarinnar“. Ábyrgðin og hagkvæmnin er sú að frá því að kvótakerfið var tekið upp eru stöðugt minni og minni aflaheimildir. Kvótakerfið var tekið upp sem verndarkerfi til að tryggja það að ekki yrði gengið of nærri þorskstofninum. Og af því að við þurftum að setja verndarkerfi um þorskstofninn voru síðan aðrar tegundir kvótasettar. Af hverju? Hvaða þörf var á því? Það var engin önnur þörf á því en sú að gjafakvótagreifarnir voru búnir að koma ár sinni fyrir annað borð og þurftu að koma ár sinni fyrir bæði. Og Sjálfstæðisflokkurinn og síðan Framsóknarflokkurinn hlupu á eftir og fóru að vilja þeirra. Fyrrverandi forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, hefur lýst því í ævisögu sinni að þetta hafi allt saman verið gert að kröfu Landssambands íslenskra útgerðarmanna sem hafi í raun verið lagahöfundar og samið það frumvarp sem varð síðan að lögum sem fyrstu kvótaólög þessa lands.

Það alvarlegasta sem hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni þann 20. október 2006 á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna var þetta:

„Eyða þarf enn frekar óvissu um réttarstöðu útgerðarmanna, þannig að ljóst liggi fyrir að réttindi þau sem þeir nú kaupa á markaði muni ekki á einni nóttu verða af þeim tekin.“ — Þ.e. eyða þarf óvissunni og tryggja gjafakvótakerfinu enn þá öruggari sess.

Þess vegna fagna ég mjög þeim ummælum sem hæstv. iðnaðarráðherra lét falla úr þessum ræðustól í dag þar sem hann í raun lýsti yfir eindregnum stuðningi við þá þingsályktunartillögu sem við ræðum hér, þar sem hann tekur algjörlega af skarið og lýsir sig andvígan gjafakvótakerfinu. Ég gat ekki betur heyrt en að hæstv. iðnaðarráðherra segði að hann væri tilbúinn til að standa að breytingum á gjafakvótakerfinu, fella gjafakvótakerfið niður og að hann vildi fara fyrningarleið að því marki.

Þá er náttúrlega spurningin þessi. Hafa einhverjar umræður orðið um þetta í ríkisstjórninni? Hafa einhverjar umræður orðið í ríkisstjórninni um það hvernig bregðast eigi við því áliti sem hér liggur fyrir? Alþingi Íslendinga hefur ekki verið upplýst um að verið sé að gera einar eða neinar ráðstafanir í þá veru.