135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:00]
Hlusta

Flm. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að vera hæstv. iðnaðarráðherra ósammála um að ég hafi flutt hér mjög lærðan lögfræðilegan fyrirlestur, það var ekki um það að ræða. Það kann vel að vera að hæstv. iðnaðarráðherra sé óvanur að hlusta á lærða lögfræðilega fyrirlestra og þess vegna hafi hann talið að um einn slíkan væri að ræða. Hefði verið um það verið að ræða hefði mun betur verið vandað til en hér var gert en það er aukaatriði.

Hæstv. iðnaðarráðherra spyr: Með hvaða hætti vilja menn breyta þessu? Ég vil taka það fram að ég var að fara yfir það hvernig stendur á því að við erum bundin af þjóðarétti vegna þess að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom hér upp og sagði að það væri ágreiningslaust að þessi niðurstaða mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna væri ekki bindandi að þjóðarétti. Það var þess vegna sem ég sagði að að sjálfsögðu væri þetta bindandi að þjóðarétti og rakti af hverju. Ég er mjög ánægður að heyra það frá hæstv. iðnaðarráðherra að sú umræða sem hafi farið fram í ríkisstjórninni sé með þeim hætti að þetta sé bindandi að þjóðarétti og að taka beri tillit til þeirra sjónarmiða sem þarna koma fram. Það þýðir þá að menn ættu að vera sammála þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur lýst yfir að hann sé.

Hann spyr: Með hvaða hætti vilja menn breyta fiskveiðistjórnarkerfinu? Ég get svarað því í stuttu máli eins og ég gerði raunar fyrr í umræðunni: Það er með þeim hætti að allir hafi jafnan aðgang að því að stunda fiskveiðar á jafnræðisgrundvelli. Það er spurningin um hvaða leiðir við eigum að fara, t.d. með uppboði veiðiheimilda eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur ítrekað bent á.