135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:02]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það getur vel verið að hv. þm. Jón Magnússon hafi þá ofurtrú á hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni sem lagaspekingi að hann telji að það sé nauðsynlegt að standa hér lengi dags í ræðupúlti hins háa Alþingis til þess að andmæla honum. Ég ber fulla virðingu fyrir hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni. Ég hef stundum látið heldur óvirðuleg orð falla um tilteknar lögfræðilegar túlkanir hans en það eru nú óskyld mál.

Alla vega þykir mér vænt um að hv. þingmaður sagði þó að hann telji að besta leiðin til þess að verða við þessum úrskurði sé sú að setja allar veiðiheimildir á markað og selja þær á uppboði. Þá mætti kannski renna sér aftur til ræðu hæstv. forsætisráðherra á þingi LÍÚ sem hv. þingmaður nefndi hér í fyrri ræðu sinni. Ég var alveg sammála því sem hæstv. forsætisráðherra sagði varðandi það að afnema þau réttindi á einni nóttu. Ég tel ekki að það eigi að gera. Mín lögfræði kann að vera heldur óbeysin eins og hv. þingmaður vék að í máli sínu hér áðan en ég hef þó lesið heima og ég er auðvitað klár á því að menn geta ekki gert það. Ég hef lesið álitsgerð Þorgeirs Örlygssonar prófessors sem þá var og Sigurðar Líndals. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að unnt væri að fyrna þessi veiðiréttindi en það yrði að gera á hæfilegum tíma og af máli þeirra mátti ráða að það yrði ekki gert á skemmri tíma en sjö árum. Ég er til í að gera það á miklu lengri tíma ef prinsippið verður lögfest. Ég veit að ég er sennilega í minni hluta hér á þessu þingi varðandi það.

Þetta er alla vega afstaða Frjálslynda flokksins og hún er virðingarverð þó að hv. þingmaður nefni að vísu bara einn þingmann flokksins, hv. þm. Grétar Mar Jónsson, sem .... Ég spyr: Er þetta stefna Frjálslynda flokksins? Ég hugsa að svo sé og ber engar brigður á það. Hitt liggur alveg ljóst fyrir að aðrir flokkar sem standa að þessari tillögu eru allt annarrar skoðunar. Þeir sem bera fram hér tillöguna geta ekki einu sinni komið sér saman um með hvaða hætti á að finna lausn á vandanum.