135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:07]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Hér hafa mörg orð fallið í tilefni umræðu þessarar tillögu til þingsályktunar um að hvetja til þess að farið verði eftir áliti mannréttindanefndar út af fiskveiðistjórnarkerfinu. Vegna þeirra orða sem fallið hafa hér gefur þetta álit öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi tilefni til þess að velta því fyrir sér hvort stefna þeirra flokks samrýmist mannréttindaálitinu. Er það hugsanlegt t.d. að í stefnu Vinstri grænna, Frjálslyndra, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins, felist mannréttindabrot ef henni væri framfylgt? Þetta þurfa flokkarnir að fara yfir því að viðhorfin og sjónarmiðin til útdeilingar auðlindarinnar eru mörg eins og fram hefur komið og sumir segja að þau séu 300 þúsund eins og þegnar landsins. Þetta held ég að sé verðugt verkefni fyrir stjórnmálaflokkana að íhuga.

Ég er á þeirri skoðun, herra forseti, og er sannfærður um að stefna Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til mannréttinda og birtist í frumvarpi til laga sem lagt hefur verið fram á fyrri þingum um stjórn fiskveiða þar sem fyrningarleiðin kemur fram. Mig langar til að geta þess í þessu sambandi að ekki alls fyrir löngu hélt sjávarútvegsnefnd Samfylkingarinnar málþing sem bar heitið Kvótakerfi á krossgötum og fékk þar mæta þegna landsins til að koma og fjalla um þessi mál. Þar á meðal kom fram Jóhann Ársælsson, fyrrverandi alþingismaður, og kom með svör við því hvað væri til ráða og hvernig við ættum að bregðast við í sambandi við kvótakerfið okkar. Þar útskýrði hann vel, talaði vel og greinilega um fyrningarleiðina, hvernig hún væri farin og hvað það mundi þýða ef við færum hana. Það mundi ekki verða nein kollsteypa, útgerðin færi ekki á hausinn og það sem eftir væri af sjávarplássunum mundi ekki riða algjörlega til falls. Stundum hefur verið sagt að ef við förum fyrningarleiðina sem Samfylkingin hefur lagt til og verið fylgjandi — og ég veit ekki um neinar aðrar samþykktir um það hjá Samfylkingunni enda er stefna hennar sú að við förum eftir henni — þá uppfyllum við þau skilyrði sem sett eru. Þar gætum við jafnræðisreglunnar gagnvart aðgangi að fiskimiðunum. Um leið viljum við passa upp á að ekki verði kollsteypa á útgerðinni sem fyrir hendi er eða að bátarnir verði bundnir við bryggju og ekki verði róið neitt meira. Það verður náttúrlega líka að vera ábyrgð gagnvart því lífi sem þegar er fyrir hendi.

Í umræðunni um þessi mál öll finnst mér reyndar ósanngjarnt þegar verið er að skamma útgerðina. Þar eru menn sem búa við þær aðstæður sem lögin setja þeim og það er óþarfi að skattyrðast út í þá sem fara eftir lögum sem Alþingi hefur sett. Það er frekar að skattyrðast út í löggjafann sem leggur þessar reglur á borðið fyrir þá til þess að vinna eftir.