135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:14]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sjálfsagt hefur útgerðin lagt stjórnmálamönnum til eyri eins og bankar og verslanir og hinir og þessir. Það er nú þannig að menn gefa út blöð, sjómannablöð, verkalýðsblöð og alls konar blöð og þeir hringja í fyrirtækin og óska eftir stuðningi og fá hann. Það hefur náttúrlega verið mikil umræða um þetta í þinginu og lög sett um stjórnmálaflokka og stuðning við stjórnmálaflokka, ef ég man rétt, sem voru samþykkt ekki alls fyrir löngu vegna þessarar umræðu.

Grundvallarmálið er það að við getum breytt kerfinu sem er mjög ranglátt að mínu mati og einnig að mati mannréttindanefndarinnar og margra annarra. Það er búið að loka fiskimiðunum fyrir fleiri þúsundum manna eða hundruðum þúsunda manna sem vilja róa. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að þó að það taki 20 eða 25 ár að breyta kerfinu þannig að það verði réttlátt og sanngjarnt er það þeirrar ferðar virði. Við erum að tala um framtíðina til langs tíma, hvernig úthlutun auðlindarinnar á að vera um ókomin ár og hvaða siðferði og grundvallargildi eiga að vera þegar fólki er veitt leyfi til að sækja sjóinn.