135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:16]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Karls V. Matthíassonar vil ég benda á að þegar kvótakerfið var sett á upplýsti Steingrímur Hermannsson það í ævisögu sinni að LÍÚ hefði komið, ásamt Halldóri Ásgrímssyni þáverandi sjávarútvegsráðherra, að því að búa til fiskveiðistjórnarkerfi í því formi sem það var upphaflega. Og alltaf og oftast þegar einhverjar breytingar hafa verið þá hefur það verið að tilmælum LÍÚ. Þeir lögðu áherslu á að taka línutvöföldunina af sem var og fengu og ýmsar reglur hafa þeir gert. Núna liggur fyrir þessu þingi frumvarp um að kvótasetja smábáta. Ég er ekki alveg frá því að þeir hafi ekki átt einhverja tillögu um að það yrði að koma í veg fyrir að þeir hefðu frelsi til þess að veiða eins og þeir hafa verið að gera á þessum litlu bátum, sjóstangveiðibátum.

En þetta er nú bara svona einn hluti af þessu. En það er hægt að gera ýmislegt, hv. þm. Karl V. Matthíasson. Það er hægt að byrja á því að taka tegundir út úr kvóta sem ekki þurfa að vera þar. Fullt af tegundum er hægt að taka út þó menn væru áfram inni með kannski þorsk og ýsu og ufsa, eitthvað þess háttar. En það er hægt að byrja á að gera þetta hratt og það er hægt að gera þetta með ýmsum hætti. Það er búið að benda á það í gegnum tíðina. En þetta hefur aldrei snúist um fiskvernd eða hagræðingu. Þetta hefur snúist um eignarhald á veiðiheimildum. Enda, eins og ég hef sagt hér áður, er kvótaeign Íslendinga í dag (Forseti hringir.) 1.000 milljarða virði.