135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:26]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Fyrst verð ég að segja að mér finnst undarlegt ástandið í þjóðmálum Íslands að það skuli vera þannig að þessi þingsályktun þurfi yfir höfuð að koma fram. Það er einfaldlega þannig. Ég held að það sé alveg rétt sem kemur fram í þessari þingsályktunartillögu, ég get bara get tekið undir það, að Alþingi álykti að hlíta beri niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 24. október 2007 þess efnis að fiskveiðistjórnarkerfi Íslendinga brjóti í bága við alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland staðfesti með auglýsingu utanríkisráðherra nr. 10 frá 28. ágúst 1979 í samræmi við þingsályktun hinn 8. maí 1979. Enn fremur að breyta verður lögum um stjórn fiskveiða í samræmi við ofangreindan úrskurð til að tryggja jafnræði borgaranna, sanngirni og mannréttindi.

Við höfum bundið okkur að þjóðarétti að gera einmitt þetta. Ef við mundum bara fara eftir því þá hefði þessi þingsályktunartillaga aldrei þurft að koma fram. Þannig lít ég nú á þetta.

Íslands hefur samþykkt, fullgilt, undirritað alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi í samræmi við ofangreinda þingsályktunartillögu frá 8. maí 1979 og skuldbundið sig til að virða úrskurðarvald mannréttindanefndarinnar í kærumálum um meint brot á honum og skuldbundið sig að þjóðarétti til að fylgja niðurstöðum hennar. Í mínum huga er þetta ekkert mikið flóknara en það.

Aftur á móti verð ég að segja að við framsóknarmenn erum fylgjandi því að hér sé kerfi sem takmarkar aðgang að fiskveiðiauðlindinni á einn eða annan hátt. Þetta er ekki tæmandi auðlind og á henni verður að vera einhvers konar stjórn. Það voru góð og gild rök fyrir því á sínum tíma að koma kvótakerfinu á. Við áttum okkur hins vegar á því að á kvótakerfinu eru ýmsir agnúar sem má laga. Það er ekkert svo í heiminum þannig að ekki megi breyta því á einn eða annan hátt sér í lagi þegar það kemur álit frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sem við höfum skuldbundið okkur til að fylgja.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur komið ítrekað í pontu í dag sem er vel og ég fagna því að það sé þó ráðherra sem taki til máls í þessu máli og mér finnst virðingarvert að hann skuli sjá af tímanum sínum en sé ekki að flækjast einhvers staðar í útlöndum eins og sumir kollegar hans. Hann hefur spurt hvað eigi að gera. Hvað eiga stjórnvöld að gera?

Í fyrsta lagi eiga náttúrlega ríkisstjórnarflokkarnir að setjast niður og taka ákvörðun um það. Það er bara einfaldlega þannig sem meiri hluti Alþingis vinnur.

Við framsóknarmenn höfum talað um að það verði bara einfaldlega sett á laggirnar samráðsnefnd allra flokka sem fari yfir þetta mikilvæga mál og nái lendingu, nái þjóðarsátt um málið. Ég held að það sé ágætistillaga sem ég hef svona vonir um að hæstv. iðnaðarráðherra geti tekið undir.

Mig langar líka að benda á tillögur okkar framsóknarmanna um breytingar á stjórnarskránni þannig að það verði staðfest að auðlindir sem eru ekki í einkaeigu séu sameign þjóðarinnar. Ef það ákvæði hefði verið í lögum, í stjórnarskránni, á þeim tíma sem þessi brot voru framin þá held ég að hægt hefði verið að koma í veg fyrir þetta álit vegna þess að hér stendur að meiri hluti nefndarinnar taldi að mismununin sé grundvölluð á ástæðum sem samsvari eignarstöðu. Þar liggur hundurinn að miklu leyti grafinn, herra forseti.

Afar fáir sjálfstæðismenn eru í þingsalnum með einni undantekningu þó. Mér finnst málflutningur þeirra vera afar undarlegur. Ég man á fyrri tímum þegar við ræddum þetta mál — mig minnir að það hafi verið utandagskrárumræða — að þá sögðu þeir, ef ég man það rétt, að álitið væri á margan hátt illa unnið og að það væri óljóst. Ég tel að svo sé nú reyndar ekki. Ég held að niðurstaðan sé skýr. Hún kveður á um að stjórnvöld eigi að bregðast við og tíminn er að renna frá stjórnvöldum. Það er mikið að gera á þinginu þannig að maður óttast að þetta náist ekki í tækan tíma. Ég held að þetta snúist kannski um hvort við ætlum að virða þjóðarétt almennt. Í mínum huga er engin spurning, eins og hefur komið fram hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, að auðvitað virða allir mannréttindi og vilja ekki að þau séu brotin. En við erum búin að skuldbinda okkur að þjóðarétti sem er réttarsvið sem er kannski ekki alveg fullmótað. Það vantar kannski skýrar lagareglur en byggist mikið á venjum og fordæmum. Þetta snýst um að við Íslendingar ætlum að virða þjóðarétt, fara eftir honum í einu og öllu.

Nú hef ég svo sem ekki mikið meira um þetta mál að segja. Ég skora á stjórnvöld að bregðast fljótt við og taka ákvörðun um hvað þau ætla að gera vegna þess að miklir hagsmunir eru í húfi. Það er mikilvægt að sjávarútvegurinn og þeir sem þar vinna viti hvað stjórnvöld ætla sér. Það verður að liggja fyrir fyrr en seinna. Allt svona hökt og óákveðni einfaldlega skaðar út frá sér.