135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:34]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson er annar framsóknarmaðurinn sem tekur þátt í umræðunni hér í dag, og er það vel, og talar um þjóðarsátt. Það hefur lengi verið talað um þjóðarsátt í allri þessari umræðu um stjórn fiskveiða og m.a.s. hafa verið skipaðar nefndir til að ná þjóðarsátt. Eftir vinnu einnar nefndar varð niðurstaðan sú að setja ætti veiðileyfagjald eða veiðigjald á fiskinn, það var nú ekki meira, en mikill hluti manna var ekki sáttur við þá niðurstöðu.

Ég leyfi mér að spyrja hv. þingmann: Hv. þingmaður sagði að auðlindin væri takmörkuð og við erum sammála því, ekki er hægt að veiða fisk takmarkalaust, en hvernig á þá að útdeila þessum heimildum? Á að gera það með því að ráðherra eða sveitarstjórnarmenn eða einhverjar nefndir skammti fiskinn á hvern bát eða væri rétt að setja heimildirnar á uppboð þar sem fleiri en einn hafa möguleika á að keppa um þær?