135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:39]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að mér fannst þessi síðasta ræða svolítið undarleg. Ég verð eiginlega að ráðleggja hv. þm. Karli V. Matthíassyni að lesa þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Þetta er mjög skýrt, því miður komst það ekki á dagskrá í dag en það verður tekið fyrir seinna.

Hér kemur fram:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.“

Það var einfaldlega þannig að við framsóknarmenn reyndum að koma þessu í gegn í síðustu ríkisstjórn en það tókst ekki. Ætli Samfylkingin hafi ekki aðeins klikkað í því máli öllu saman, og stjórnarandstaðan var nú ekki til bóta. Það hefði í sjálfu sér ekki verið neitt mál að koma því í gegnum þingið þá en því miður tókst það ekki.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð en þar sem Samfylkingin hefur tekið afskaplega vel í þessa þingsályktunartillögu held ég að hún renni frekar ljúflega í gegnum þingið nema þetta sé bara hluti af þessum samræðustjórnmálum sem ég er nú að upplifa trekk í trekk, en ekkert gerist. Það er talað og talað, og það gerir hv. þm. Karl V. Matthíasson m.a., en ekkert gerist. (Gripið fram í.)