135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:44]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Nei, við lítum ekki þannig á málin. Þess vegna erum við að leggja fram frumvarp þar sem endanlega er kveðið skýrt á um að þetta sé þjóðareign. Við höfum aldrei litið á að þetta sé einhver einkaeign og þarna myndist einhver einkaeignarréttur. Að þetta sé einhver ný hugsun hjá Framsóknarflokknum, ég hafna því algjörlega. Við höfum talað fyrir þessu í mörg ár. Vissulega komum við kvótakerfinu á í samráði við aðra stjórnarflokka og eins og ég hef sagt eru á kvótakerfinu agnúar sem má laga, en á þeim tíma var þörf á því að koma einhverjum böndum á þessa auðlind. Það var einfaldlega þannig að skipin mokuðu fiskinum upp úr sjónum en samt sem áður var enginn arður af því. (Gripið fram í.)

Þú getur tekið dæmi af Austurlandi, öllum skipum var siglt í höfn um leið og menn óðu fiskinn upp að hnjám, kvótakerfið var sett af þeirri ástæðu. Það þarf að gæta sanngirni, finnst mér, í þessari umræðu, sem reyndar fjallar ekki um kvótakerfið heldur um ályktun Frjálslynda flokksins um að farið verði eftir lögum og þjóðréttarlegum skuldbindingum. Óþörf þingsályktunartillaga sem þörf skapaðist reyndar fyrir vegna þess að ríkisstjórnin er svo óamstíga, og getur ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut, að hún hefur engin ráð, (Forseti hringir.) veit ekkert hvað hún ætlar að gera.