135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:46]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Þessi þingsályktunartillaga er nauðsynleg og auðvitað ættu allir hér í þingsalnum að átta sig á því, en saga Framsóknar og fiskveiðistjórnarkerfisins er hörmungarsaga. Framsóknarflokkurinn hefur stutt núverandi fiskveiðistjórnarkerfi alla tíð, verið þátttakandi í því að gera þær breytingar frá upphafi, sem eru orðnar, held ég, 36 eða 37, og þær hafa allar verið til hins verra.

Það er enginn að tala um að veiða umfram tillögur fiskifræðinga þó að ekki verði kvótakerfi. Hægt er að halda sig við tillögur um hvað sé rétt að veiða úr hverjum stofni með ýmsum öðrum hætti, þetta snýst ekkert um það. Það er hægt að ákveða í hve marga daga verður veitt eða hvernig á að gera þetta. Það er hægt að hafa banndaga, stoppdaga og takmarka veiði eftir geðþótta, hægt að loka svæðum og annað þess háttar. Það eru nefnilega menn sem þekkja ekki til og átta sig ekki á því hvað fiskveiðistjórnarkerfið er. Það eru landhelgislínur og lokuð svæði og annað í þeim dúr. (Gripið fram í.) Meðal annars er hægt að nota færeysku leiðina, þó svo að gera þyrfti á henni ákveðnar breytingar til þess að hún væri nothæf.

Það er þess vegna skrýtið, og kemur mér afskaplega einkennilega fyrir sjónir, að menn tali um að þeir styðji breytingar á stjórn fiskveiða til þess að fullnægja áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna en komi ekki með tillögur um það hvernig þeir ætli að gera það, og hafa samt sem áður stutt þetta kvótakerfi. Auðvitað fagnar maður því þegar formaður Framsóknarflokksins lýsir því yfir að hann vilji gera breytingar og fara að áliti mannréttindanefndar (Forseti hringir.) Sameinuðu þjóðanna, það er fengur að því að fá liðsauka.